Spá 40 m/s í hviðum

Litirnir á meðfylgjandi mynd sýna spá um úrkomu milli kl. …
Litirnir á meðfylgjandi mynd sýna spá um úrkomu milli kl. 16 og 17 á morgun í hefðbundnum millimetrakvarða. Á þessum tíma mun langmest af úrkomunni falla sem snjór og þumalputtareglan segir að 1 mm af rigningu samsvari 1 cm af nýföllnum snjó. Mynd/Veðurstofan

„Eftir veðurblíðuna undanfarið tekur nú við alvöru vetrarveður,“ samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar.

Búist er við talsverðri eða mikilli snjókomu norðaustantil á landinu síðdegis á morgun. Búist er við stormi (meðalvindi meira en 20 m/s) á Vestfjörðum í nótt og fyrramálið, en suðaustan- og austanlands undir kvöld á morgun. Spáð er vindhviðum um eða yfir 40 m/s sunnan undir Vatnajökli annað kvöld með líkum á sandfoki.

Veðurvefur mbl.is

Veðurhorfur á landinu til miðnætti annað kvöld:

Suðvestan 5-13 m/s og væta í flestum landshlutum. Hiti 3 til 8 stig. Gengur í norðaustan storm á Vestfjörðum í nótt með snjókomu. Hvessir af norðri annars staðar á landinu á morgun, víða 13-20 m/s síðdegis, en 18-25 annað kvöld suðaustan- og austanlands. Slydda og síðar snjókoma á norðurhelmingi landsins, talsverð eða mikil úrkoma frá Tröllaskaga og allt austur á norðanverða Austfirði. Stöku skúrir eða él syðra. Kólnandi veður, hiti um frostmark seint á morgun, en frostlaust syðst.

Athugasemdir veðurfræðings á vef Veðurstofunnar eru eftirfarandi:

Athygli er vakin á að spáð er snjókomu á morgun og fram eftir mánudegi. Dæmigert snjómagn sem fellur á umræddu tímabili gæti verið 10-20 cm á Vestfjörðum og Norðvesturlandi, en 20-30 cm frá Tröllaskaga og allt austur á Austfirði. Þessar snjódýptartölur eiga við jafnfallinn snjó, en það verður hann ekki því spáð er miklum vindstyrk og því mun draga í skafla. Líklegt er að færð spillist, sérílagi á fjallvegum, þar sem verður stórhríð þegar verst lætur. Einnig má búast má við að snjóflóðahætta geti skapast til fjalla á norðurhelmingi landsins.

Spáð er vindhviðum um eða yfir 40 m/s sunnan undir …
Spáð er vindhviðum um eða yfir 40 m/s sunnan undir Vatnajökli annað kvöld með líkum á sandfoki. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert