23 fimleikakrakkar úr klifurdeild Bjarkar og Klif-A á Akranesi eru meðal þeirra fjölmörgu sem eru veðurtepptir í Staðarskála eftir að Holtavörðuheiðinni var lokað vegna veðurs. „Við keyptum okkur spil og höfum það sæmilegt en krökkunum er nú farið að langa til að komast heim,“ segir Lilja Björk Baldvinsdóttir sem er meðal átta fullorðinna sem fylgdu hópnum í klifurferð til Dalvíkur. Hópurinn kom í rútu í Staðarskála kl. 17.15 og er þar enn.
Hér er hægt að fylgjast með nýjustu upplýsingum um færðina.
„Það er enn mjög slæmt veður, mikill vindur,“ segir Linda og bætir við að stappfullt sé í skálanum. Hún segir að hópurinn ætli að bíða og sjá hvort að heiðin verði opnuð fljótlega. Annars verði að grípa til „plans B“. Hún segir að m.a. komi til greina að gista í nágrenni Staðarskála. „Við vorum að koma úr klifurferðalagi svo við erum með allt til alls í rútunni, vindsængur og svefnpoka.“
Kl. 21.50 bárust þær fréttir frá Vegagerðinni að stefnt sé að því að opna Holtavörðuheiði í kvöld. Enn eru bílar fastir á heiðinni.
Börnin eru á aldrinum 8-14 ára og Linda segir að auðvitað sé mörgum þeirra farið að langa til að komast heim. Nú hafa þau beðið í Staðarskála í tæpa 4 klukkutíma. „En við höfum mat og hér er klósett og svo keyptum við spil og spilum jatzy og tvennu,“ segir Linda. „Þetta hefði getað verið verra, við hefðum getað setið einhvers staðar föst í rútunni.“
Enn er mjög slæmt veður á Holtavörðuheiði og samkvæmt upplýsingum sem Linda og fleiri í Staðarskála hafa fengið verður athugað eftir tvo tíma hvort að heiðin verði opnuð.