Bílar fastir á Holtavörðuheiði

Svona er skyggnið á Holtavörðuheiði. Myndin er tekin úr vefmyndavél …
Svona er skyggnið á Holtavörðuheiði. Myndin er tekin úr vefmyndavél kl. 17.30. Skjáskot/Vegagerðin

Björgunarsveitir eru nú komnar að Holtavörðuheiði til að aðstoða ökumenn sem þar sitja fastir í bílum sínum. Einnig eru bílar fastir á Hófaskarði á Melrakkasléttu. Margir eru veðurtepptir í Staðarskála í Hrútafirði. Mjög slæmt veður er á Holtavörðuheiði.

Uppfært 18.30: Umferðarslys varð efst á Holtavörðuheiði síðdegis í Hæðarsteinsbrekku. Sjúkrabíll er nú á staðnum auk björgunarsveita. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi urðu ekki slys á fólki.

Búið er að loka Holtavörðuheiði og Hófaskarði samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Einnig er búið að loka Þröskuldum, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjalli, Mývatns- og Möðrudalsöræfum og á Vopnafjarðarheiði.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu eru að minnsta kosti þrír bílar fastir á Hófaskarði. Ekki er óveður á þeim slóðum en þungfært.

Björgunarsveitarmenn frá Brák í Borgarnesi og Heiðari í Varmalandi eru komnar á Holtavörðuheiði þar sem ökumenn sitja einnig fastir. 

„Það er brjálað að gera,“ sagði starfsmaður í Staðarskála er mbl.is hafði samband í kvöld. 

Veður fer versnandi á norðurhelmingi landsins. Mest snjóar frá Tröllaskaga og allt austur á norðanverða Austfirði.

Veðurvefur mbl.is.

Vetrarfærð er nú á Vestfjörðum og ófært á Klettshálsi og lokað á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Ófært er einnig á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

Það eru hálkublettir eða snjóþekja á fjallvegum á Norðurlandi vestra og snjóþekja og óveður á Siglufjarðarvegi. Lokað er yfir Holtavörðuheiði og Þverárfjall. Á Norðausturlandi er versnandi veður og þæfingsfærð á Hólaheiði og Sandvíkurheiði og búið að loka veginum í Hófaskarði. Eins er búið að loka veginum yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi.

Á Austurlandi er þæfingsfærð á Fjarðarheiði og á Vatnsskarði eystra og hálkublettir á Fagradal en greiðfært er á láglendi. Greiðfært er einnig með suðausturströndinni.

Vegir eru að mestu auðir á Suðurlandi en þó er snjóþekja á Lyngdalsheiði. Á Vesturlandi eru hálkublettir á flestum fjallvegum en greiðfært á láglendi. 

Ferðalöngum fjölgar nú í Staðarskála í Hrútafirði.
Ferðalöngum fjölgar nú í Staðarskála í Hrútafirði. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert