Lægðin er nú hægfara fyrir austan land og ívið dýpri en spáð var í morgun. Hún mjakast suður með Austfjörðum í nótt. Hvessir mjög austanlands nú síðdegis og með hríðarveðri austur um á miðja Austfirði. Um leið hvessir suðaustanlands og reikna má staðbundið með mjög byljóttum vindi og hviðum allt að 40-45 m/s frá Lómagnúpi og austur um á sunnanverða Austfirði.
Við þessar aðstæður gerir sandfok í þurri norðanáttinni, m.a. úr Skaftárfarvegi og á Skeiðárásandi. Lægir ekki að gagni fyrr en komið er vel fram á morgundaginn. Á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi minnkar ofankoman og éljagangur fljótlega í kvöld en áfram verður skafrenningur fram á nóttina, einkum á fjallvegum.
Þetta kemur fram í ábendingum veðurfræðings Vegagerðarinnar.
Landsbjörgu hefur ekki borist neitt útkall ennþá en eru við öllu búin. „Við erum að fylgjast vel með. Fólkið okkar fylgist vel með spánni þegar viðvörun er send út og svarar kallinu þegar það berst,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, Upplýsinga- og kynningarfulltrúi hjá slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
Á vef Veðurstofunnar segir í viðvörunarorðum sem skrifuð voru rétt fyrir kl. 16 að veður fari nú versnandi á norðurhelmingi landsins. Mest mun snjóa frá Tröllaskaga og allt austur á norðanverða Austfirði og dæmigert snjómagn sem fellur í þessu áhlaupi á þeim slóðum gæti verið 20-30 cm.
Þessar snjódýptartölur eiga við jafnfallinn snjó, en það verður hann ekki því spáð er miklum vindstyrk og því mun draga í skafla. Vegfarendum er bent á að færð getur versnað hratt við þessar aðstæður. Einnig má búast má við að snjóflóðahætta geti skapast til fjalla á norðurhelmingi landsins.