Ljóst er að fyrsta beina rútuferð Gray Line frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar mun taka lengri tíma en þær sex klukkustundir sem hún átti að taka, miðað við tilkynningu frá fyrirtækinu fyrr í dag.
Frétt mbl.is: Aka frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar
Vegagerðin lokaði Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Laxárdalsheiði og fleiri leiðum vegna óveðurs og fyrir vikið hafa rútufarþegar Gray Line þurft að bíða í Hreðavatnsskála síðastliðinn klukkutíma.
Kl. 21.50 bárust þær fréttir frá Vegagerðinni að stefnt sé að því að opna Holtavörðuheiðina í kvöld.
„Við bíðum átekta og ætlum okkur að reyna að komast norður. Það er markmiðið,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line.
„Þetta tefst eitthvað. Við ráðum ekki við veðrið,“ bætir hann við og býst við tveggja til þriggja klukkustunda seinkun. „Um leið og umferð verður hleypt um Holtavörðuheiði gengur þetta hratt fyrir sig.“
Til stóð að aka norður á lúxusrútu Gray Line með salerni og veitingaaðstöðu, ásamt internettenginu. Vegna færðarinnar var ákveðið að nota minni rútu með framdrifi í staðinn. „Lúxusinn vék fyrir örygginu. Svona lúxusrútur taka meiri vind á sig. Stundum verður maður að hagræða fyrir svona aðstæður.“
Rútan átti að leggja af stað til baka frá Akureyri til Keflavíkur klukkan 23.15 í kvöld en það mun ekki ganga eftir. Þórir vonast til að farþeginn sem á bókaða ferðina suður með Gray Line muni ná fluginu. Þá á samt eftir að koma í ljós.
„Við látum engan bilbug á okkur finna. Fall er fararheill. Þetta truflar okkur ekkert mikið því þetta er eitthvað sem við áttum alltaf von á að gæti gerst.“
Þórir býst við að jómfrúarferð lúxusrútunnar verði á þriðjudaginn næsta en rútuferðir frá Keflavík til Akureyrar verða þrisvar í viku í apríl og maí.