Stefnt er að því að opna veginn yfir Holtavörðuheiði síðar í kvöld. Beðið er eftir því að vind lægi. Enn eru bílar fastir á heiðinni. Til greina kemur að hleypa þeim hópi sem nú er í Staðarskála yfir heiðina í hollum í fylgd björgunarsveita.
Frekari frétta er að vænta innan skamms, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Fullt er út úr dyrum í Staðarskála þar sem fólk bíður spennt frétta af því sem verða vill.
Uppfærðar fréttir af færð má finna hér.
Nú kl. 22 er lokað á Holtvörðuheiði, Bröttubrekku, Laxárdalsheiði, Þverárfjalli, Hófaskarði, Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði. Veginum frá Skeiðarársandi og austur að Jökulsárlóni hefur einnig verið lokað.
Búist er við talsverðri eða mikilli snjókomu norðaustantil á landinu fram á nótt. Búist er við stormi (meðalvindi meira en 20 m/s) í flestum landshlutum, einkum suðaustan- og austanlands í kvöld. Spáð er vindhviðum um eða yfir 40 m/s sunnan undir Vatnajökli í kvöld með sandfoki.