Veður fer versnandi, fyrst á Vestfjörðum og almennt á Norðurlandi þegar líður á morguninn. Spáð er hríðarveðri og 15-20 m/s. Í Reykhólasveit, Dölum og á Holtavörðuheiði verður blint, sérstaklega eftir miðjan daginn.
Austanlands hvessir og snjóar einkum eftir hádegi og horfur á stórhríðarveðri síðdegis og í kvöld um landið norðaustanvert. Upp úr kl. 17 til 18 hvessir suðuaustanlands og verður sviptivindasamt frá Lómagnúpi austur í Berufjörð.
Eins má reikna með sandfoki yfir Eldhraun vestan Klausturs, eins á Skeiðarársandi og e.t.v. víðar. Norðvestantil gengur veður smámsaman niður í kvöld, en áfram þó skafrenningur.
Veðurstofa Íslands varar við talsverðri eða mikilli snjókomu norðaustantil á landinu síðdegis. Búist er við stormi (meðalvindi meira en 20 m/s) á Vestfjörðum í nótt og framan af degi, en suðaustan- og austanlands undir kvöld. Spáð er vindhviðum um eða yfir 40 m/s sunnan undir Vatnajökli í kvöld með líkum á sandfoki.