Dregur úr vindinum í dag

Birta Líf Kristinsdóttir.
Birta Líf Kristinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Það dregur úr vindinum núna, það er ennþá stormur suðaustanlands en það er að draga úr þessu og eftir hádegi verður smá strekkingur fyrir austan. Í kvöld verður síðan hæg átt og úrkomulítið og vægt frost. Þannig að þetta er allt að róast og á réttri leið.“

Þetta segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is spurð um veðurhorfur. Hins vegar komi ný lægð á morgun en tiltölulega lítill kraftur verði í henni. Þannig verði suðaustanátt, 8-13 metrar á sekúndu með rigningu á láglendi sunnan- og vestanlands. Þurrt norðaustantil á landinu.

Veður­vef­ur mbl.is

Færð og aðstæður á vegum landsins kl. 8.00:

Vegir eru  auðir á Suður- og Suðausturlandi en á Suðausturlandi er sums staðar hvasst, raunar óveður í Hamarsfirði og sandfok á Skeiðarársandi.

Á Vesturlandi er sums staðar nokkur hálka  eða snjóþekja.

Verið er að hreinsa vegi á Vestfjörðum. Þar er þæfingur á köflum í Djúpinu og á Steingrímsfjarðarheiði en víðast hvar er nokkur hálka. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar.

Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Norðurlandi. Ófært er á Hófaskarði og Sandvíkurheiði en verið að moka.

Mokstur er hafinn yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi.  Ófært er á Vatnsskarði eystra og Fjarðarheiði er enn lokuð. Verið er að moka bæði Fagradal og Oddsskarð. Mjög hvasst er í Hamarsfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert