Togaði ferðamann upp úr fjörunni

Konan náði að standa af sér ölduna en færði sig …
Konan náði að standa af sér ölduna en færði sig aðeins nokkur skref ofar í fjöruna. mynd/Sigríður Víðis

Erlendir ferðamenn tefla enn á tvær hættur í Reynisfjöru þrátt fyrir viðvörunarskilti sem sett voru upp þar í vetur. Sjónarvottur togaði erlenda ferðakonu upp úr fjörunni í gær sem virtist ekki gera sér neina grein fyrir hættunni sem var á ferðinni. Skiltin eru aðeins á örfáum tungumálum og ekki er gengið svo langt að tala um lífshættu nema á íslensku.

Yfirlögregluþjónn segir óraunhæft að koma upp föstu eftirliti í fjörunni. 

viðvörunarskilti voru sett upp við Reynisfjöru í febrúar eftir að kínverskur ferðamaður drukknaði þar. Á þeim er varað við lífshættulegum öldum. Svo virðist þó sem að ekki taki allir mark á þeim viðvörunum.

Sigríður Víðis Jónsdóttir var á ferð í fjörunni ásamt fjölskyldu sinni í gær. Margt fólk var í fjörunni, hvasst var í veðri og mikið brim. Hún segir að þeim hafi fundist sumir ferðamennirnir hætta sér ansi nálægt sjónum.

Ferðakonan virtist ekki gera sér neina grein fyrir hættunni sem …
Ferðakonan virtist ekki gera sér neina grein fyrir hættunni sem var á ferðinni, að sögn Sigríðar. mynd/Sigríður Víðis

Gerði sér ekki grein fyrir hættunni

Þegar Sigríður var að taka myndir tók hún eftir öldu brotna nokkuð langt frá landi og sjóinn flæða að konu sem stóð í fjörunni og var að líta í kringum sig. Konan virtist hins vegar ekki gera sér neina grein fyrir því hversu hratt gæti flætt, hversu mislangt öldurnar ganga á land og hvað útsogið getur verið kröftugt, að sögn Sigríðar.

„Skyndilega var búið að flæða allt í kringum konuna. Ég verð að viðurkenna að það fór um mig. Konan stóð sem betur fer ölduna af sér og komst sjálf upp úr sjónum. Á hinn bóginn gekk hún ekki nema nokkur skref ofar í fjöruna eftir að vera komin upp úr vatninu – og næsta alda var á leiðinni. Þá hljóp ég niður eftir til hennar og togaði í hana og konuna sem var með henni og skipaði þeim að fara ofar í fjöruna, það væri stórhættulegt að standa þarna. Það var eins og hún áttaði sig engan veginn á því eða hvað útsogið getur verið kröftugt,“ segir Sigríður.

Hún bendir á að á viðvörunarskiltunum standi skýrt að hætta sé á ferðum. Ekki standi hins vegar í hverju hættan felst nákvæmlega eða hvernig eigi að varast hana. Hættan í fjörunni sé ekki sýnd á myndrænan hátt eða hvað fólk eigi að gera og forðast að gera.

Á viðvör­un­ar­skilti við Reyn­is­fjöru er varað sér­stak­lega við lífs­hættu­leg­um öld­um. …
Á viðvör­un­ar­skilti við Reyn­is­fjöru er varað sér­stak­lega við lífs­hættu­leg­um öld­um. Þar stendur þó einungis á íslensku að öldurnar séu lífshættulegar. Á ensku eru þær aðeins sagðar hættulegar og á þýsku eru þær sagðar ófyrirsjáanlegar. mynd/Sigríður Víðis

Ná aldrei til allra

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að viðvörunarskiltin séu skýrari en þau sem voru áður og menn hafi verið ásáttir um að þau væru góð breyting frá því sem var. Hann segir að lögreglu berist alltaf ein og ein tilkynning um ferðamenn sem setji sig í hættu í fjörunni en það hafi töluvert minnkað.

„Fólk ákveður sjálft hverju það tekur mark á. Við náum því miður aldrei til allra. Það er bara þannig og verður, sama hve mikið við gerum,“ segir Sveinn Kristján.

Hann telur að skiltin séu nægilega skýr um hættuna sem er fyrir hendi í fjörunni.

„Þegar það eru komin of flókin skilti með of miklum texta þá les það ekki nokkur maður. Það er bara tilfellið, því miður. Eftir því sem það er meira og flóknara, því minna er það lesið. Ef þetta er einfalt og skýrt þá nærðu betri árangri,“ segir yfirlögregluþjónninn.

Lögregla hafði eftirlit með Reynisfjöru í tvær vikur eftir banaslysið í vetur. Spurður að því hvort að þörf sé á að hafa stöðugt eftirlit í fjörunni segir Sveinn það óraunhæft að ætla að setja upp fast eftirlit með öllum ferðamannastöðum. Því fylgdi óhemjukostnaður.

Þá bendir hann á að jafnvel þegar lögreglumenn voru með eftirlit í fjörunni þá hafi komið upp tilfelli þar sem ferðamenn sem stóðu ofan í fjörunni hunsuðu tilmæli þeirra.

„Fólk var ekkert að hlusta,“ segir Sveinn Kristján.

Varað við hættunni í Reynisfjöru. Bent er sérstaklega á stórar, …
Varað við hættunni í Reynisfjöru. Bent er sérstaklega á stórar, hættulegar öldur en ekki annars konar hættu af öldunum. mynd/Sigríður Víðis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka