Áfrýjar sýknudómi Annþórs og Barkar

Annþór og Börkur í Héraðsdómi Suðurlands í janúar þegar málið …
Annþór og Börkur í Héraðsdómi Suðurlands í janúar þegar málið gegn þeim var flutt. mbl.is

Ríkissaksóknari hefur áfrýjað sýknudómi Héraðsdóms Suðurlands yfir þeim Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni vegna dauða samfanga þeirra á Litla-Hrauni til Hæstaréttar. Óvíst er hvort að málið komist á dagskrá Hæstaréttar fyrir sumarið. 

Annþór og Börkur voru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða Sigurðar Hólm Sigurðssonar á Litla-Hrauni árið 2012. Saksóknari fór fram á 12 ára fangelsi yfir tvímenningunum. Þeir voru hins vegar sýknaðir í Héraðsdómi Suðurlands 23. mars.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, segir að búið sé að áfrýja dómnum. Sækjendur og verjendur þurfi að skila greinargerðum og áhöld séu um að málflutningur nái að fara fram fyrir sumarleyfi. Enginn málflutningur er í Hæstarétti eftir 17. júní.

„Aðallega krefjumst við sakfellingar í samræmi við ákæru. Við erum ósammála þessu mati Héraðsdóms og teljum að það sé fullnægjandi sönnun komin fram um að þeir hafi framið það brot sem þeim er gefið að sök,“ segir Helgi Magnús. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert