Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að líkja mætti atburðarásinni í dag við ameríska bíómynd þegar kröfuhafar sögðust á síðustu stundu vilja ræða við bæjaryfirvöld.
Um er að ræða þá kröfuhafa sem skrifuðu ekki undir drög að samkomulagi þegar frestur rann út klukkan 17 síðastliðinn miðvikudag. Sendu þeir bæjaryfirvöldum erindi rétt fyrir fundinn í dag en þar átti að ræða það hvort innanríkisráðuneytið skipaði bænum fjárhaldsstjórn. „Okkur fannst sjálfsagt að verða við þeirra beiðni. Við gefum okkur tvær vikur til að finna út hvort það er raunverulegur samningsgrundvöllur við þennan hóp eður ei,“ segir Kjartan Már.
Spurður hvort erindi þeirra hafi komið á óvart segir hann: „Í fyrsta lagi var ég hissa á að þeir skildu ekki skrifa undir samkomulagið um daginn, því við teljum það vera þess eðlis að það sé gott fyrir alla aðila. Svo kom það mér á óvart hvað þetta kom seint í dag. Þetta var bara eins og í amerískri bíómynd. Datt inn fimm mínútum fyrir úrslitastund. Þeir hefðu kannski geta verið búnir að þessu fyrr.“
Kröfuhafarnir eru átján talsins, þar á meðal bankar, lífeyrissjóðir, þrotabú og leigufélög. Viðræður Reykjanesbæjar við þá hafa staðið yfir síðastliðna átján mánuði.
Frétt mbl.is: Reykjanesbær óski eftir fjárhaldsstjórn
Eru kröfuhafarnir hræddir við að skipuð verði fjárhaldsstjórn?
„Það veit enginn hvað það þýðir í raun. Það hefur ekkert sveitarfélag af þessari stærð á Íslandi fengið yfir sig fjárhaldsstjórn, þannig að við vitum ekkert hvað gerist,“ segir Kjarta Már.
Hann bætir við að innanríkisráðuneytið hafi ekki vitað hvaða gögn bærinn ætti að senda inn ef fjárhaldsstjórn yrði skipuð, þegar bærinn hringdi þangað. „Þeir sögðu: „Við vitum það ekki. Þetta hefur aldrei verið gert“,“ segir Kjartan. „Þannig að þetta er algjörlega fordæmalaust,“ bætir hann við og tekur fram að fjárhaldsstjórnir hafi verið skipaðar til aðstoðar mun minni sveitarfélögum á Íslandi, þar á meðal Álftanesi, sem síðar var sameinað Garðabæ. „Það er ekki hægt að bera þetta saman.“
Skuldir Reykjanesbæjar nema rúmum 40 milljörðum króna. Niðurfærsluþörf bæjarins nemur 6 milljörðum og 350 milljónum króna. „Þetta snýst um að semja við kröfuhafana um að ná því markmiði og í öðru lagi hvernig það skiptist á milli þeirra," greinir Kjartan frá.