Verktakafyrirtækið Mannverk er búið að svara Minjastofnun Íslands þar sem það gerir betur grein fyrir máli sínu vegna niðurrifs Exterer-hússins sem stóð við Tryggvagötu.
Að sögn Kristínar Huldar Sigurðardóttur, forstöðumanns Minjastofnunar, verður farið í gegnum svarið á morgun.
Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort stofnunin muni leggja fram kæru í málinu.
Fresturinn sem Minjastofnun veitti Mannverki til að svara rann út í gær. Áður en svarið barst frá fyrirtækinu hafði eina svarið sem Minjastofnun fékk síðan það lét rífa húsið verið yfirlýsing sem send var út til fjölmiðla í síðustu viku.
Þar bað fyrirtækið Minjastofnun, byggingaryfirvöld og almenning afsökunar á skorti á aðgát þegar það ákvað að rífa húsið, sem var friðað.