Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, segir að stofnunin sé enn að fara yfir svar Mannverks varðandi niðurrif verktakafyrirtækisins á Exter-húsinu.
Það gæti dregist fram í næstu viku að taka ákvörðun um hvort Minjastofnun muni kæra Mannverk fyrir athæfi sitt eða ekki.
Mannverk fékk frest til mánudagsins síðasta til að gera betur grein fyrir máli sínu vegna niðurrifs hússins, sem stóð við Tryggvagötu og var friðað.
Svarið til Minjastofnunar barst í tæka tíð en fram að því hafði eina svarið sem stofnunin fékk síðan Mannverk lét rífa húsið verið yfirlýsing sem var send út til fjölmiðla í síðustu viku.
Þar bað fyrirtækið Minjastofnun, byggingaryfivöld og almenning afsökunar á skorti á aðgát þegar það ákvað að rífa húsið.