BHM hefur sent hvalaskoðunarfyrirtækinu Elding Whale Watching erindi þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við auglýsingu fyrirtækisins þar sem óskað er eftir tveimur sérfræðingum í ólaunuð sjálfboðastörf við rannsóknir á hegðun hvala. Umrædd auglýsing var nýlega send út á opinn póstlista vísindamanna sem stunda rannsóknir á sjávarspendýrum.
Í henni kemur fram að auk vísindastarfa er gert ráð fyrir að starfsmennirnir annist afgreiðslustörf og þrif um borð í hvalaskoðunarbátum fyrirtækisins. Þeir þurfi að vera reiðubúnir að vinna allt að 14 klukkustundir á dag og fái aðeins fæði og húsnæði fyrir.
Í erindi BHM er bent á að kjarasamningar aðildarfélaga bandalagsins kveða á um lágmarkslaun fyrir tiltekin störf. Vinnuveitendum sé óheimilt að ráða til sín starfsmenn á lakari kjörum. BHM telur að í umræddri auglýsingu felist skýrt brot á kjarasamningum og lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Bandalagið krefst þess að Elding Whale Watching greiði þeim sem ráðnir verða í umrædd störf að lágmarki þau laun sem kjarasamningar tilgreina sem lágmarkslaun fyrir störf af þessu tagi.