EVE Fanfest hátíð og ráðstefna tölvuleikjaframleiðandans CCP hófst í dag, en hátíðin sem stendur fram á laugardag, fer líkt og undanfarin ár fram í Hörpu. Að sögn Eldars Ástþórssonar, upplýsingafulltrúa CCP þá er Harpan nú troðfull af tölvuleikjaunnendum. „Hátíðin fer vel af stað,“ segir hann
Á hátíðinni kynnir CCP nýja leiki sína og verkefni á sviði sýndarveruleika, sem Hilmar Veigar Pétursson framkvæmdastjóri CCP fjallaði um í upphafsorðum sínum. Bein útsending verður frá hátíðinni, auk þess sem ýmsir viðburðir henni tengdir fara fram á öðrum stöðum borgarinnar.
Gestum stendur t.a.m. til boða að prófa nýja sýndarveruleika leiki fyrirtækisins Gunjack og EVE: Valkyrie, ásamt nýju verkefni sem ber heitið; Project Nova. „Þar erum við að leita eftir viðbrögðum gesta og leyfa þeim að taka þátt í þróuninni,“ segir Eldar og kveður fyrstu viðbrögð vera jákvæð. „Hátíðargestir eru mjög spenntir yfir þessum nýjungum á sviði sýndarveruleika og gefa okkur jákvæð viðbrögð. Síðan kemur í ljós á næstu dögum hvað annað kemur inn sem getur gagnast okkur í þróun leikjanna.“
Búist er við um 1.500 erlendum gestum á hátíðina í ár og eru þeir að stærstum hluta spilarar tölvuleiksins EVE Online. Einnig sækja viðburðinn ýmsir starfsmenn afþreyingar- og tölvuleikjaiðnaðarins og rúmlega 50 blaðamenn frá mörgum stærstu leikja- og tæknimiðlum heims, ásamt viðskiptaritum og almennum fjölmiðlum á borð við Forbes og Vice. Alls er búist við að um 3.000 manns sæki hátíðina.
Í Hörpu er aðstaða til að fólk geti komið sér í karakter sem tengist þá þeirra persónu í EVE heiminum. „Sumir mæta fullklæddir í búningi. Þetta er svolítið hátíð fjölbreytileikans,“ segir Eldar. Gestir komi víða að, séu á ólíkum aldri og þá komi sumir líka klæddir sem karakterar úr leiknum. „Þannig að það myndast mjög skemmtileg stemning sem ég held að teygi sig út í miðborgina á meðan að hátíðin stendur yfir.“
EVE Fanfest er nú haldin tólfta sinn og hefur hátíðin stækkað mikið síðan hún var fyrst haldin árið 2004. Í ár samanstendur dagskráin af 87 dagskrárliðum. Má þar nefna fyrirlestra og pallborðsumræður um efnahagsmál og sagnfræði í EVE heiminum, tækni og framtíð mannkyns, list og hönnun í EVE Online, hvernig maður getur orðið betri valkyrja - og hvernig tölvuleikjaspilarar geta hjálpað vísundunum í verkefninu Project Discovery.