Ekkert aflandsfélag í eigu forsetans

Ólafur Ragnar Grímsson sagðist fagna birtingu Panama skjalanna í viðtali …
Ólafur Ragnar Grímsson sagðist fagna birtingu Panama skjalanna í viðtali á CNN. mbl

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að ekkert eigi eftir að koma í ljós um aflandsfélög í eigu hans eða eiginkonu hans, Dorrit Moussaieff. Þetta kom fram í viðtali CNN sjónvarpsstöðvarinnar við Ólaf Ragnar í morgun.

Þáttastjórnandinn Christiane Amanpour spurði hvort forsetinn eða Dorrit ættu einhverja aflandsreikninga. „Er eitthvað sem á eftir að koma þar í ljós varðandi þig eða fjölskyldu þína?“ spurði Amanour. „Nei það á ekki eftir að gerast,“ sagði Ólafur Ragnar.

Amanpour spyr forsetann einnig hvert álit hans sé á birtingu Panama-skjalanna og segist Ólafur Ragnar fagna því að þau hafi verið gerð opinber og að þau fái umfjöllun í fjölmiðlum. Birting Panama-skjalanna sé „mikilvæg almannaþjónusta“, líkt og margar aðrar uppljóstranir hin síðari ár, á tímum þar sem gagnsæi eigi að ríkja. Þetta sé mikilvæg áminning um að ýmsar aðferðir sem orðið hafi til í fjármálaheiminum á undanförnum árum séu ekki liðnar í nútímasamfélögum.

Amanpour bendir einnig á að Ólafur Ragnar hafi nú þegar setið í fimm kjörtímabil. „Það er óvenju langur tími,“ segir Ólafur Ragnar. Undanfarin ár hafi hins vegar verið afar óvenjuleg og hann hafi orðið var við háværar kröfur undanfarið um stöðugleika og reynslu.

Ísland sé mögulega eina Evrópuríkið sem hafi leyst úr fjármálakreppunni með lýðræðið að vopni, segir Ólafur Ragnar og vísar þar í þjóðaratkvæðagreiðslur sem haldnar voru um Icesave-samningana. 

Viðtalið við Ólaf Ragnar má finna hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka