„Ísland mun leggja sitt af mörkum“

Sigrún við undirritun samningsins.
Sigrún við undirritun samningsins. Mynd/Aðsend

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag Parísarsamninginn um aðgerðir í loftslagsmálum fyrir Íslands hönd við athöfn í New York.

Í ávarpi í tilefni undirritunarinnar sagði ráðherra að Ísland ynni að því að framkvæma markmið samningsins, m.a. með aðgerðum á sviði samgangna, fiskveiða og landbúnaðar, auk kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu, að því er kom fram í fréttatilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Fulltrúar yfir 160 ríkja skrifuðu undir samninginn við athöfn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í dag. Aldrei áður hafa jafn mörg ríki skrifað undir alþjóðasamning við slíka athöfn.

Frétt mbl.is: „Við erum í kapphlaupi við tímann“

Efla skógrækt og landgræðslu

Umhverfis- og auðlindaráðherra sagði að Ísland myndi leggja sig fram við að hrinda markmiðum Parísarsamningsins í framkvæmd. Endurnýjanleg orka væri notuð við hitun og rafmagnsframleiðslu á Íslandi, en draga yrði úr losun frá öðrum uppsprettum. Íslensk stjórnvöld styddu við uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og ynnu að minnkun losunar frá sjávarútvegi og landbúnaði í samvinnu við atvinnulífið. Mikilvægt væri að vinna að kolefnisbindingu úr andrúmsloftinu jafnframt því að draga úr losun. Ísland myndi efla skógrækt og landgræðslu, en á heimsvísu væri mikilvægt að berjast gegn eyðimerkurmyndun.

Stuðningur við þróunarríki

Ráðherra sagði að Ísland styddi þróunarríki við verkefni á sviði loftslagsmála og hreinnar orku. Alþjóða jarðhitabandalagið hefði verið sett á fót í París og Ísland bindi vonir við að það ýti undir nýtingu jarðhita á heimsvísu. Ráðherra minnti á mikilvægi þess að konur nytu fulls jafnréttis og væru virkjaðar til ákvörðunartöku og starfa og benti á að jafnt kynjahlutfall sé í ríkisstjórn Íslands.

 „Jafnrétti er markmið í sjálfu sér og mun að auki hjálpa okkur að vinna að grænni og betri framtíð. Parísarsamningurinn mun hjálpa okkur við að virkja pólitískan vilja og fjármagn til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Ísland mun leggja sitt af mörkum,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra í tilkynningunni.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og Francois Hollande, forseti Frakklands, …
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og Francois Hollande, forseti Frakklands, í New York í dag. KENA BETANCUR

Fullgilding Parísarsamningsins

Parísarsamningurinn er lagalega bindandi alþjóðasamningur undir Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (sem er oftast kallaður Loftslagssamningur S.þ.). Parísarsamningurinn hefur sömu lagalegu stöðu og Kýótó-bókunin við Loftslagssamninginn, sem skrifað var undir 1997 og tók gildi 2005. Skuldbindingar ríkja samkvæmt Kýótó-bókuninni renna út árið 2020, en skuldbindingar ríkja innan Parísarsamningsins eru miðaðar við tímann eftir 2020.

Tvö skref

Aðild ríkja að Parísarsamningnum fer í gegn um tvö skref, undirskrift og fullgildingu, samkvæmt því sem segir í tilkynningunni. Með undirskrift lýsa fulltrúar ríkisstjórna yfir vilja sínum til að uppfylla ákvæði samningsins, en fullgilding jafngildir staðfestingu á því að samningurinn hafi verið samþykktur í samræmi við innri reglur viðkomandi ríkis og eru ríki frá þeim tíma bundin við reglur hans.

Ísland hefur nú undirritað samninginn ásamt yfir 160 öðrum ríkjum, en fullgilding er eftir. Vinna við það er hafin, en hún kallar meðal annars á þýðingu og lagalega rýni varðandi atriði sem kann að þurfa að leiða í íslensk lög. Ákvæði eru í Parísarsamningnum um að hann gangi í gildi alþjóðlega þegar minnst 55 ríki með 55% af heimslosun hafa fullgilt hann.

Unnið með 28 ríkjum ESB

Ísland hefur lýst yfir ætlun að vinna að sameiginlegu markmiði með 28 ríkjum ESB innan Parísarsamningsins. Noregur hefur lýst yfir sams konar áformum, en bæði ríkin eru þátttakendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir skv. EES-samningnum. Hafnar eru óformlegar viðræður Íslands og Noregs með ESB um útfærslu á sameiginlegu markmiði um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990. Ísland mun einnig hafa samráð við ESB og Noreg varðandi fullgildingu Parísarsamningsins í ljósi þess að stefnt er að því að 30 Evrópuríki vinni að sameiginlegu markmiði innan hans.     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka