Kosningar í október

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, ræddu við …
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, ræddu við forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna í dag. mbl.is/Eggert

„Eftir því hvernig mál ganga fram gætu kosningar orðið hugsanlega seinni hlutann í október,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, í samtali við mbl.is. Hann sat fund með forystumönnum stjórnarandstöðunnar í dag þar sem þetta var tilkynnt. Fundurinn fór fram í Stjórnarráðinu og hann sat Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra einnig.

„Við kynntum þingmálaskrá sem að við höfum óskað eftir að þingið taki upp og breyti starfsáætlun sinni þannig að það verði væntanlega þing í ágúst og eftir atvikum eitthvað fram í september,“ segir Sigurður Ingi. Samkvæmt niðurstöðum fundarins verður því um sumarþing að ræða. 

Sigurður Ingi gat ekki gefið nánari dagsetningu varðandi kosningar. 

„Ef starfsáætlun þingsins telur að við getum lokið þessum málum á þessum tíma, sem ég held að sé mjög auðvelt, þetta er það langur tími og það gangi eðlilega fram í þinginu, þá er október eðlilegur tími fyrir kosingar.“

Á fundinum var einnig farið yfir málaskrá ríkisstjórnarinnar, lista forgangsmála sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að verði lokið fyrir kosningar. Meðal þeirra mála sem áhersla er lögð á eru haftamál og húsnæðismál að sögn Sigurðar Inga. Hann segir um 20 mál á þessum lista ríkisstjórnarinnar. 

„Það eru fjölmörg mál sem hafa verið í þinginu og við rætt um. Það eru húsnæðismálin, fjármálamarkaðir og afnám hafta, heilbrigðismál og annað í þeim dúr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka