EVE Fanfest stendur þessa dagana yfir í Hörpu og býðst gestum m.a. að prófa nýja sýndarveruleika leiki, en nokkur slík verkefni eru auk þess kynnt fyrir gestum á hátíðinni. Eitt slíkt er Project Arena, verkefni - sem fær góð viðbrögð hjá leikjavefnum Road to VR, en frumgerð þess var kynnt í Hörpunni í gær.
Segir greinarhöfundur að Project Arena hafi tekið miklum framförum frá því frumstæð útgáfa var kynnt á Eve Fanfest í fyrra og vöktu diskarnir sem spilari er með á úlnliðum til að senda frá sér og verjast sendingum mótspilara lukku.
„Við erum að leita eftir viðbrögðum gesta og leyfa þeim að taka þátt í þróuninni,“ sagði Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, við mbl.is í gær, um þau sýndarveruleika verkefni sem gestum gefst tækifæri á að prófa. „Hátíðargestir eru mjög spenntir yfir þessum nýjungum á sviði sýndarveruleika og gefa okkur jákvæð viðbrögð. Síðan kemur í ljós á næstu dögum hvað annað kemur inn sem getur gagnast okkur í þróun leikjanna.“
„Það er ótrúlegt hversu nákvæmir þeir eru. Við erum að vonast til að þetta verði rafglíma [eSport], en þetta er samt meira en það af því að þetta er raunveruleg íþrótt. Þetta er eiginlega sýndarveruleikaíþrótt,“ sagði Hilmar Veigar Pétursson framkvæmdastjóri CCP þegar hann kynnti gestum Project Arena.