Fanfest lokað með partíi á heimi ofan

EVE Fanfest í Hörpu.
EVE Fanfest í Hörpu. Þórður Arnar Þórðarson

Hinni árlegu hátíð CCP, EVE Fanfest, var slúttað í kvöld með tónleikahaldi og var hljómsveitin Skálmöld fengin til þess að setja punktinn yfir i-ið. Um 3.000 gestir komu og tóku þátt í dagskránni, sem lagði undir sig Hörpu síðustu þrjá daga.

„Það er að fara í gang það sem við köllum Party at the Top of the World og þá æsast leikar. Þetta er lokahnykkurinn eftir pallborðsumræður og fyrirlestra yfir helgina og alls konar hittingar um alla Hörpu en núna setjum við aðeins í partígírinn og förum bara yfir í að skemmta okkur saman,“ segir Eldar Ástþórsson upplýsingafulltrúi CCP í samtali við mbl.is eftir ráðstefnuna í kvöld.

Spilararnir í forgang

Aðalmálið á hátíðinni nú sem fyrr var að spilarar EVE Online geti komið saman og hitt bæði hvern annan og framleiðendur leiksins. „Það hefur alltaf verið kjarninn í hátíðinni. Við getum þá heyrt í spilurum og það hefur mótað leikjaþróunina hjá okkur í kjölfarið.“

Fyrri frétt mbl.is: Frábært að hitta spilarana

„Það var mjög skemmtilegt á hátíðinni bæði hvað gestir skemmtu sér vel og voru jákvæðir yfir nýjungum sem við vorum að kynna en líka bara stemningin að hitta aðra spilara og það var gaman fyrir okkur að verða vitni að því öllu,“ segir Eldar en á hátíðinni voru einnig kunngerðar niðurstöður lýðræðislegra kosninga spilara í hið svokallaða CSM ráð EVE sem starfar sem n.k. tengiliður spilara við fyrirtækið.

Búningar við hæfi eru fastur liður í tölvuleikjaráðstefnum og Fanfest …
Búningar við hæfi eru fastur liður í tölvuleikjaráðstefnum og Fanfest er engin undantekning þar á. Þórður Arnar Þórðarson

Gefur nasaþefinn af því sem vænta má

Eldar segist ánægður með viðbrögðin við þeim nýjungum sem sýndar voru á hátíðinni. „Við höfum fengið góða umfjöllun í erlendum fjölmiðlum í kringum þær nýjungar sem við höfum kynnt bæði í okkar núverandi leikjum, þá helst EVE Online, en líka þær tilraunir sem við vorum að prufa á hátíðinni. Það gefur okkur aukið sjálfstraust og vissu fyrir því að halda áfram með þau verkefni,“ segir Eldar en CCP gaf gestum færi á að prófa bæði PC skotleikinn Project Nova og sýndarveruleikaleikinn Project Arena

Fyrri frétt mbl.is: 3.000 manns mættir á EVE Fanfest

„Við höfum ekki ákveðið enn hvað við gerum við þá og hvort þeir verða gefnir út sem tölvuleikir en það sem við höfum sýnt á Fanfest í gegnum tíðina hefur oft orðið að alvöru leikjum. Valkyrie var t.d. bara sýningargripur á Fanfest fyrir tveimur árum sem hét EVE VR og sömuleiðis í fyrra vorum við með verkefni sem hét Project Nemesis sem kom út fyrir Samsung Gear VR núna í nóvember undir heitinu Gunjack og hefur orðið mjög vinsæll á þeim búnaði.“

Citadel heita nýjustu viðbæturnar við EVE Online sem kynntar voru á Fanfest en í þeim felast bæði breytingar og viðbætur við geimstöðvar í eigu leikmanna leiksins, meðal annars. Þá var nýjasti leikur CCP, Eve: Valkyrie að sjálfsögðu til sýnis en hann kom út samhliða Oculus Rift sýndarveruleikabúnaðinum nú á dögunum og er væntanlegur á Playstation 4 þegar sýndarveruleikabúnaður kemur út fyrir þá vél seinna í ár.

Hart tekist á í sýndarveruleika.
Hart tekist á í sýndarveruleika. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert