Um 1.500 erlendir gestir eru nú hér á landi í tengslum við EVE fanfest, hátíð tölvuleikjaframleiðandans CCP. Einn þeirra er Ástralinn Dan Crone, sem hefur spilað EVE Online í ein tólf ár. „Það er of vægt til orða tekið að segja að ég sé aðdáandi EVE Online,“ segir Dan sem hefur spilað leikinn frá 2004.
Hann starfar sem ráðgjafi fyrir stjórnvöld í Ástralíu og er nú á Íslandi í fjórða sinn til að taka þátt í EVE Fanfest. Ferðalagið er langt en Dan segir það vera þess virði. „Mér finnst frábært að koma hingað og hitta starfsfólk CCP og alla spilarana sem eru hingað komnir víðs vegar að úr heiminum. Þetta er hápunkturinn á hverju ári hjá mér og það hvetur mig áfram í vinnunni að vita að ég á þetta frábæra frí í vændum.“
Hann neitar því að það geti verið leiðinlegt að taka svo lengi þátt í sama leiknum. „EVE Online er ekki eins og venjulegur tölvuleikur. Fjölbreytileikinn er svo mikill að þetta er aldrei sami leikurinn frá einum degi til þess næsta,“ segir Dan og kveður þátttakendur sífellt finna ný viðfangsefni. „Núna er t.d. mikil styrjöld í gangi í Norðrinu og þá skráir fólk sig inn á hverjum degi til að taka þátt. Þetta hefur meira að segja fengið þá sem voru hættir til að snúa aftur.“
Dan segist hafa kynnst fólki um allan heim í gegnum EVE Online og að í gegnum leikinn hafi hann eignast suma sína nánustu vini. „Ég kom hingað fyrst 2013. Þetta var í fyrsta skipti sem ég kom til Íslands og fyrsta heimsókn mín á hátíðina og ég man að ég gekk á milli allra kynninganna og drakk í mig allar þær upplýsingar sem ég gat.“ Áherslurnar hafi hins vegar breyst með fleiri heimsóknum. „Þó ég hafi enn áhuga á því sem er að gerast í leiknum, þá kem ég núna til að hitta vini mína sem ég hef kynnst í gegnum leikinn og eiga góðar stundir með þeim.“