Annþór og Börkur í opin fangelsi

Annþór er nú kominn á Kvíabryggju.
Annþór er nú kominn á Kvíabryggju. Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson

Annþór Karlsson og Börkur Birgisson eru báðir komnir í opin fangelsi, en þeir hafa nú setið inni frá því í mars árið 2012. Voru þeir þá handteknir og ákærðir fyrir  stór­felld­ar lík­ams­árás­ir og ólög­mæta nauðung og voru látnir sitja af sér fyrri dóma. Í desember 2012 fengu þeir svo 6 og 7 ára dóma fyrir fyrrnefnd ákæruatriði. Hæstiréttur staðfesti svo dóm þeirra í október árið 2013.

Mál tvímenninganna hefur fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum, en í maí árið 2012 lést samfangi þeirra á Litla-Hrauni og voru Annþór og Börkur grunaðir um aðild að andlátinu. Í mars á þessu ári voru þeir aftur á móti sýknaðir í málinu.

Annþór hefur verið færður á Kvíabryggju en Börkur á Sogn. Eru fangelsin bæði opin fangelsi.

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segist í samtali við mbl.is ekki geta tjáð sig um málefni einstakra fanga þegar mbl.is bar málið upp við hann.

Sogn.
Sogn. mbl.is/Rax

Aðspurður um skilyrði fyrir því að fangar færu úr lokuðu fangelsi í opið fangelsi sagði hann að hlutverk Fangelsismálastofnunar vær meðal annars að koma í veg fyrir að fólk myndi brjóta af sér aftur. Stór hluti af því væri svokallaður tröppugangur í afplánun. Fyrsta skrefið væri lokað fangelsi, þaðan í opið fangelsi og svo yfir á áfangaheimili. Þar næst er rafrænt eftirlit áður en kemur að reynslulausn.

Páll segir að fylgt sé föstum reglum í þessu samhengi, svo sem varðandi agabrot fanga og þarf meðal annars ákveðinn tími að vera liðinn frá slíku broti þangað til fangar geta farið í opið fangelsi. Þá segir hann að ekki skipti máli fyrir hvað menn séu dæmdir, svo framarlega sem það sé talið öruggt að færa menn í opið fangelsi þá sé það gert að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Talsvert hefur verið um að brotamenn sem tengjast efnahagsbrotum hafi setið inni á Kvíabryggju. Aðspurður um tengingu þess brotaflokks við fangelsið segir hann það vera algjöra vitleysu. Þannig sé öll flóra brotamanna í öllum fangelsum landsins, líka á Kvíabryggju og Sogni sem eru opnu fangelsin.

Fangar eiga samkvæmt Páli möguleika á að fara yfir í opið fangelsi þegar 3 ár eru eftir af fangelsisvist þeirra.

23 fangar geta verið á Kvíabryggju á hverjum tíma og 21 á Sogni.

Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins.
Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins. Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka