Fimmfaldir meistarar á sex árum

Það var mikið stuð í Holtaskóla þegar sigurvegarar í Skólahreysti …
Það var mikið stuð í Holtaskóla þegar sigurvegarar í Skólahreysti árið 2016 gengu með bikarinn í gegnum samkomusalinn. mbl.is/Eyþór Sæm

Holtaskóli frá Reykjanesbæ hrósaði sigri í Skólahreysti árið 2016. Úrslitin fóru fram í Laugardalshöll síðastliðinn miðvikudag, á síðasta vetrardegi. Þetta er annað árið í röð sem skólinn vinnur þessa fjörugu keppni og í fimmta skiptið á undanförnum sex árum. Blaðamaður mbl.is gat ekki annað en gert sér sérstaka Skólahreystisferð á Reykjanesið í þeim tilgangi að reyna að finna út hvað það er sem skapar þennan framúrskarandi árangur.

Þegar blaðamann ber að garði er sérstök sigurhátíð að hefjast í samkomusal skólans þar sem um 400 nemendur úr 1.- 10. bekk safnast saman. Bikarasafnið er orðin ansi veglegt en þar má finna fleiri verðlaun en fyrir Skólahreysti. Eðvarð Þór Eðvarðsson, skólastjóri Holtaskóla, byrjaði athöfnina á að kalla upp á svið nemendur sem náðu nýverið góðum árangri í stærðfræðikeppni Framhaldsskólans á Suðurnesjum. Holtaskóli er einnig ríkjandi grunnskólameistari í sundi og fengu þeir nemendur einnig viðurkenningu frá skólanum.

Þá var komið að nýjustu stjörnunum, Skólahreystismeisturunum sjálfum. Tónlistin var hækkuð í botn og allt ætlaði að ærast þegar liðsmennirnir sex komu í salinn með bikarinn á lofti. Að athöfn lokinni fóru aðrir nemendur aftur í skólastofurnar en meistararnir sex fengu leyfi til að ræða aðeins við blaðamann.

Sigurlið Skólahreystis 2016 frá Holtaskóla. Efri röð f.v.: Bergþór Magnússon, …
Sigurlið Skólahreystis 2016 frá Holtaskóla. Efri röð f.v.: Bergþór Magnússon, íþróttakennari, Stefán Pétursson, Halldór Berg Halldórsson, Gunnólfur Björgvin Guðlaugsson og Einar Guðberg Einarsson, íþróttakennari. Neðri röð f.v.: Katla Björk Ketilsdóttir, Sunna Líf Bergþórsdóttir og Elsa Albertsdóttir. mbl.is/Eyþór Sæm

Skólahreystival á unglingastigi

„Við byrjum að æfa strax á unglingastiginu,“ segir Stefán Pétursson, nemandi í 10. bekk. Hinir krakkarnir taka undir að það eigi ríkan þátt í þeim árangri sem skólinn hefur náð á síðustu árum. Öllum nemendum á unglingastigi stendur til boða að taka þátt í svokölluðu Skólahreystisvali, sem er viðbót við hefðbundna íþrótta- og sundkennslu í skólanum. Það er ekki nauðsynlegt að stefna á keppni í Skólahreysti en íþróttakennararnir velja keppendurna úr þessum hópi á endanum.

„Í tímunum stillum við upp braut sem er svipuð Skólahreystisbrautinni og æfum okkur,“ segir Stefán, sem spreytti sig í brautinni í úrslitunum ásamt Sunnu Líf Bergþórsdóttur. Auk þeirra skipa liðið þau Katla Björk Ketilsdóttir sem keppti í armbeygjum og hreystigreip, Halldór Berg Halldórsson, sem keppti í upphífingum og dýfum, Elsa Albertsdóttir og Gunnólfur Björgvin Guðlaugsson, sem eru varamenn í brautinni.

Stefán segir að stressið hafi gert vart við sig á …
Stefán segir að stressið hafi gert vart við sig á úrslitakvöldinu, en allt hafi gengið upp að lokum. mbl.is/Eyþór Sæm

Þau eru með fjölbreyttan bakgrunn úr alls konar íþróttum, eins og fótbolta, fimleikum, crossfit, körfubolta og hnefaleikum. Flest byrjuðu þau í Skólahreystisvalinu strax í 8. bekk. „Skólahreystivalið er samt ekki bara fyrir þá sem vilja keppa, líka þá sem vilja bara hreyfa sig,“ segir Katla Björk, en hún er sú eina í liðinu sem hefur keppt áður. Það var því stór stund þegar liðið gekk inn í Laugardalshöllina á úrlistakvöldinu.

Katla Björk hefur tvisvar sinnum sigrað í Skólahreysti. Hún stefnir …
Katla Björk hefur tvisvar sinnum sigrað í Skólahreysti. Hún stefnir á heimsleikana í Crossfit áður en langt um líður. mbl.is/Eyþór Sæm

„Ég var mjög stressaður, en reyndi bara að anda inn og út,“ segir Stefán. „Það er lítið hægt að gera þegar maður er svona stressaður,“ segir Sunna Líf. Þau voru hins vegar búin að nýta vikurnar sex frá undankeppninni til að undirbúa sig vel. „Æfingarnar urðu aðeins alvarlegri og við lögðum okkur aðeins meira fram,“ segir Halldór, en hann bætti sig um 14 dýfur og 9 upphífingar milli keppna, sem er stórglæsilegur árangur.

Gunnólfur æfir einnig fótbólta og setur stefnuna á atvinnumennskuna.
Gunnólfur æfir einnig fótbólta og setur stefnuna á atvinnumennskuna. mbl.is/Eyþór Sæm

Strákarnir mun þöglari en stelpurnar í bílferðum

Holtaskóli sigraði einnig í fyrra og segir Katla Björk að pressan hafi vissulega verið til staðar. „Okkur leið eins og við mættum ekki tapa, við vorum búin að horfa á þetta hérna alla daga,“ segir hún, og bendir á risavaxnar ávísanir sem prýða veggina í samkomusalnum, sjö talsins, sex fyrir fyrsta sæti og ein fyrir annað sæti. „Ég hugsaði að mig langaði að bæta við einni, svo við máttum ekki klúðra þessu.“

Þau stóðust pressuna svo sannarlega og lönduðu sigrinum í Laugardalshöll síðastliðinn miðvikudag. Þau segjast ekki vera með neina sérstaka hjátrú á keppnisdeginum, en ein hefð hefur þó skapast og það er að stelpurnar fara í bíl með einum þjálfaranum og strákarnir með hinum. „Strákarnir segja ekki eitt orð á leiðinni en við stelpurnar tölum allan tímann,“ segir Elsa. „við sváfum bara smá í bílnum,“ segir Gunnólfur og Katla Björk skýtur þá inn í: „Það var svo leiðinlegt hjá þeim,“ og hlær.

Krakkarnir héldu upp á sigurinn með því að fara í Ísbúð Vesturbæjar, áður en haldið var aftur heim á leið til Keflavíkur, undir dyggri forystu þjálfaranna og íþróttakennaranna, þeirra Einars Guðbergs Einarssonar og Bergþórs Magnússonar. Þegar blaðamaður spyr nánar út í íþróttakennarana og þjálfarana reka þau öll upp mikinn hlátur, sem túlka má sem blöndu af einhvers konar stresshlátri og hefðbundnum hlátri. Kennararnir standa álengdar og hafa ef til vill sent þeim augngotur þegar spurningin var borin upp.

„Þeir eru yndislegir, einkunnin okkar er á línunni sko,“ heyrist í Kötlu Björk. Eftir nánara spjall kemur síðan í ljós að ein í hópnum, Sunna Líf, er dóttir Bergþórs, annars þjálfarans, en það samstarf hefur víst gengið eins og í sögu.

Sunna Líf fór í gegnum hraðabrautina á úrslitakvöldinu með glæsibrag.
Sunna Líf fór í gegnum hraðabrautina á úrslitakvöldinu með glæsibrag. mbl.is/Eyþór Sæm

Úr hraðabrautinni og hangsinu í vorpróf

Nú taka við hefðbundnar skólavikur og próf áður en krakkarnir halda út í sumarið. En hvernig ætli gangi í öðrum fögum en íþróttum? Það slær þögn á hópinn en Halldór segir svo að það sé ágætt að þau geti núna nýtt tímann til að einbeita sér að bókunum. Þau eru hins vegar öll sammála um að það að hafa mikið að gera hjálpi til við að skipuleggja tímann betur.

Katla Björk viðurkennir að æfingaferlið hafi verið strembið, en skemmtilegt. „Ég er samt glöð að þetta sé að verða búið, þetta var samt yndislegur tími og allt það, en nú þarf ég aldrei að hanga aftur,“ segir hún og hlær. Önnur greinin sem hún tók þátt í, svokölluð Hreystigreip, felst í því að hanga á járnstöng eins lengi og hægt er. Katla Björk er með tónlist í eyrunum á meðan hún hangir. „Ég hlusta alltaf á Only með Nicki Minaj, því ég veit nákvæmlega hversu langt ég er komin í öllum hlutum lagsins og ég kann allt rappið utan að. Lagið er held ég rúmlega fimm mínútur og ég hékk í 5:26 þannig ég fór aðeins yfir í næsta lag.“

„Þú áttir að klára það líka,“ heyrist þá í Bergþóri íþróttakennara. „Hann er ekkert að grínast sko,“ segir Katla Björk. Svo skellihæja þau öll. 

Í lokin er aðeins rætt um framtíðina og svo virðist sem íþróttir komi þar við sögu hjá felstum. Stefáni dreymir um að vera flugmaður en Katla Björk setur stefnuna á heimsleikana í Crossfit. Elsa og Sunna Líf æfa báðar körfubolta og dreymir Elsu um að komast í háskólakörfuboltann í Bandaríkjunum. „Mig langar bara að lifa lífinu og hafa gaman,“ segir Sunna Líf. Halldór er lítið að hugsa um framtíðina eins og er en Gunnólfi langar að komast í atvinnumennsku í fótbolta.

Ljóst er að með þessum metnaði eiga þessi krakkar eftir að ná langt, sama hvert þau stefna. Þrjú þeirra munu útskrifast úr Holtaskóla í vor, þau Stefán, Katla Björk og Elsa, en Sunna Líf, Halldór Berg og Gunnólfur Björgvin ætla að gera sitt besta til að komast aftur í liðið á næsta skólaári.

Elsa er einnig í unglingalandsliðinu í körfubolta og dreymir um …
Elsa er einnig í unglingalandsliðinu í körfubolta og dreymir um að komast til Bandaríkjanna í háskólakörfuboltann. mbl.is/Eyþór Sæm
Halldór tók þátt í bæði upphífingum og dýfum á úrslitakvöldinu.
Halldór tók þátt í bæði upphífingum og dýfum á úrslitakvöldinu. mbl.is/Eyþór Sæm
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka