Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri, er á meðal þeirra Íslendinga sem nefndir eru í Panama-skjölunum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins en þar sagði að Finnur hefði stofnað aflandsfélag með Helga S. Guðmundssyni, fyrrverandi formanni bankaráðs Seðlabankans, sem nú er látinn en tilgangurinn muni hafa verið að kaupa hlutabréf í Landsbanka Íslands.
Finnur staðfesti í samtali við mbl.is 7. apríl að hann hafi átt helmingshlut í viðkomandi félaginu Adair á móti viðskiptafélaga sínum. Sagði hann félagið hafa verið stofnað árið 2007 í gegnum Landsbankann í Lúxemborg. „Landsbankinn stýrði því félagi alveg,“ sagði Finnur og bætti við að félagið hefði verið í lítilsháttar fjárfestingum. Þeir fjármunir hafi síðar tapast að fullu. Félagið hafi verið gert upp og lokað árið 2010. Sagðist hann ekki hafa hugmynd um hvort þetta hafi verið í gegnum lögmannsstofuna Mossack Fonseca í Panama sem Panama-skjölin koma frá. Þetta hafi verið alveg í gegnum Landsbanka Íslands.
Frétt mbl.is: Íslendingar á vinnuskjölum Jóhannesar
Finnur Ingólfsson fæddist 8. ágúst 1954 í Vík í Mýrdal, sonur hjónanna Ingólfs Þorsteinssonar og Svölu Magnúsdóttur. Finnur stundaði nám við Samvinnuskólann á Bifröst 1973-1975 og lauk stúdentsprófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1979. Viðskiptaprófi frá Háskóla Íslands lauk hann 1984. Finnur var framkvæmdastjóri Prjónastofunnar Kötlu 1975–1976 og framkvæmdastjóri Prjónastofunnar Dyngju 1977–1978. Hann var síðar stundakennari í hagfræði við Flensborgarskólann í Hafnarfirði 1982–1983.
Finnur hefur sinnti ýmsum félagsstöfum í gegnum tíðina. Ekki síst á vettvangi Framsóknarflokksins. Hann var formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands 1981–1982 og formaður Sambands ungra framsóknarmanna 1982–1986. Þá var hann gjaldkeri Framsóknarflokksins 1986–1994, formaður fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Reykjavík 1987–1991 og varaformaður Framsóknarflokksins 1998–2001.
Finnur varð aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra 1983–1987 og síðan aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1987–1991. Finnur var fyrst kjörinn á Alþingi 1991 og var formaður þingflokks framsóknarmanna 1994–1995. Hann var skipaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1995 en lét af embætti í desember 1999.
Finnur var ráðherra fram að þingkosningunum vorið 1999 og eftir þær var hann skipaður á ný í embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hann lét hins vegar af embætti að eigin ósk en hann hafði þá orðið fyrir harðri gagnrýni vegna Kárahnjúkavirkjunar sem þá stóð til að reisa.
Eftir að Finnur lét af ráðherraembætti var hann skipaður einn þriggja bankastjóra Seðlabankans árið 2000 og gegndi hann því embætti til 2002. Í lok árs 2002 tók Finnur við sem forstjóri tryggingafélagsins VÍS. Hann varð síðar stjórnarformaður félagsins.
Finnur var kjörinn stjórnarformaður Icelandair 2006 en félag í eigu hans átti um tíma stóran hlut í flugfélaginu. Hann sat einnig í stjórn Kaupþings og settist í stjórn Samvinnusjóðsins og Andvöku 2008. Þá átti hann um tíma allt hlutafé í skoðunarfyrirtækinu Frumherja.