„Líf! Hvað er líf?“

Fjölskyldan kom til Íslands í ágúst.
Fjölskyldan kom til Íslands í ágúst. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Irina Seibel, eiginmaður hennar Vladimir og þrjú börn þeirra halda til Parísar í fyrramálið, út í óvissuna eftir að hafa aðlagast íslenskri menningu síðastliðna átta mánuði en að lokum verið neitað um hæli.

Fjölskyldan, sem er frá Úsbekistan, flúði heimili sitt vegna trúarofsókna þar sem þau eru babtistatrúar en meirihluti íbúa aðhyllist íslamska trú. Í tölvupósti til mbl.is segir Irina að sig langi til að trúa því að Ísland sé lýðræðislegt og sanngjarnt ríki sem annt um líf fólks en að slík umhyggja nái ekki til fjölskyldu sinnar.

„Líf! Hvað er líf? (...) Það að vaxa, læra, ná árangri, öðlast starfsferil , stofna fjölskyldu, eignast börn og ala þau og svo hefst hringrásin að nýju,“ skrifar Irina á rússnesku.

Frétt mbl.is: „Hér göngum við frjáls út á götu“

Hún segir frá þeirri upplifun að landið sem hún hafi gefið æsku sína vilji eyða lífi hennar, fyrir það eitt að játa aðra trú en þá sem samlöndum hennar þyki ásættanleg.

„Á einhverjum tímapunkti í lífinu vaknarðu hrædd....ég er hrædd um líf mitt, um líf barnanna minna og fjölskyldu [mannsins míns].... Og þú byrjar að safna saman eigum þínum, kaupa miða og fljúga, fljúga þangað sem verður LÍF!“

Hún segir fjölskylduna hafa komið til Íslands með einmitt það fyrir augum, vonina um að fá að lifa lífi sínu.

„Þegar við gengum út úr flugvélinni var mjög sterkur vindur, ég hafði lesið um vindinn á Íslandi en ég átti ekki von á þessu. Fyrsta hugsun mín var: Þetta er frelsi! Frelsi til að anda, frelsi til að hugsa frelsi til að lifa! Með þetta í huga komum við hingað. Til lands þar sem við vissum að hlustað yrði á okkur. Ísland, land tjáningarfrelsis, athafnafrelsis og réttlætis.“

Frétt mbl.is: Við elskum að vera hérna

Irina segir að á þeim átta mánuðum sem fjölskyldan hafi búið á Íslandi hafi hún kynnst hjarta landsins. Börnin hafi byrjað í skóla, farið í íþróttir og öll fjölskyldan hafi byrjað að læra tungumálið.

„[Börnin] tóku þessu lífi eins og þau hefðu búið hér frá fæðingu. Það tók þau fjóra mánuði að læra íslensku. Þau hófu lífið á Íslandi eins og þau hefðu fæðst hér. Það er sárt! Það er mjög sársaukafullt og sorglegt að við getum ekki verið hér. Stækka fjölskylduna, vinna og læra að vera bara LIFANDI!“

Í niðurlagi tölvupóstsins segir Irina fjölskylduna kveðja landið með harmkvælum og tárum enda sé sárt fyrir börnin að yfirgefa vini sína og kennara.

„Mig langar til að skrifa að Ísland sé lýðræðislegt og sanngjarnt land sem er annt um líf fólks. En við erum líklega ekki ein af þeim. Við viljum lifa, og lifa í friði! Með ást til Íslands, Irina Seibeil.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka