Skólahreysti yfirtekur Reykjanesbæ

Bergþór Magnússon (lengst til vinstri) og Einar Guðberg Einarsson (lengst …
Bergþór Magnússon (lengst til vinstri) og Einar Guðberg Einarsson (lengst til hægri) ásamt sigurliði Holtaskóla í Skólahreyti árið 2016. Skólinn hefur fimm sinnum unnið keppnina á sex árum. mbl.is/Eyþór Sæm

Íþróttakennararnir Bergþór Magnússon og Einar Guðberg Einarsson höfðu varla undan við að taka á móti faðmlögum og hamingjuóskum á kennarastofunni í Holtaskóla þegar blaðamaður mbl.is heimsótti skólann, rétt áður en sigurathöfn í tilefni af sigri skólans í Skólahreysti átti að hefjast.

Holtaskóli hefur unnið Skólahreysti fimm sinnum á síðustu sex árum og sex sinnum í heildina. Frá árinu 2011 hefur Einar séð um svokallað Skólahreystival, sem nemendur á unglingastigi geta tekið þátt í. Bergþór, eða Beggi eins krakkarnir kalla hann, hefur starfað við skólann frá 2012.

Ekki skylda að stefna á keppnina

„Við vorum búin að reyna nokkrum sinnum áður, en þá gekk ekki neitt. Þá ákváðum við að setja upp sérstakt val fyrir krakkana og síðan þá höfum við alltaf komist í úrslit,“ segir Einar. Valfagið nýtur gríðarlegra vinsælda. „Við vorum með 60 nemendur í valinu í fyrra, núna eru á milli 40-50 en það er einungis lítill hluti sem fer í valið með það að markmiði að keppa. Valið heitir Skólahreysti en er hugsað sem eins konar heilsuvernd eða heilsurækt fyrir krakkana.“ Skólahreystirvalið er samt sem áður viðbót við þá hefðbundu íþrótta- og sundkennslu sem fram fer í skólanum.

Beggi og Einar segja að þó að sumar af æfingunum líti auðveldlega út í sjónvarpinu, þá sé um mjög krefjandi æfingar að ræða og krakkarnir fá að kynnast því í valinu. „Þetta eru svo einhæfar æfingar margar hverjar“, segir Einar og tekur Hreystigreipina sem dæmi, þar sem stelpurnar keppast um að hanga sem lengst á járnslá. „Þú gerir ekkert annað en að hanga og það er lítil gleði sem fylgir því. Hraðabrautin er á sama tíma miklu fjölbreyttari.“

Hefur eytt þremur árum í að hanga

Það sést greinilega að Begga og Einari er mjög umhugað um nemendur sína og keppendur í Skólahreysti og dást að metnaði þeirra og árangri. Í sigurhópnum í ár er nemandi sem er nú tvöfaldur meistari, Katla Björk Ketilsdóttir. „Katla er til dæmis búin að eyða þremur árum núna í að hanga og gera armbeygjur til skiptis, hún byrjaði í 8. bekk,“ segir Beggi. Einar bætir við að þeim hafi stundum þótt erfitt að senda hana á slána í upphafi æfinga, þar sem hún er búin að eyða tímunum saman í að hanga. „Það þarf mikinn viljastyrk og þrjósku til að halda þetta út,“ segir hann. En æfingin skapar víst meistarann og Katla náði glæsilegum árangri í úrslitakeppninni, hékk samtals í 5 mínútur og 26 sekúndur og lenti í 2. sæti í Hreystigreipinni.

„Við erum líka fljótir að spotta þá krakka sem hafa áhuga. Það skín í gegn hjá þeim sem vilja þetta,“ segir Einar. „Stundum klikkum við en við erum komnir í ágætis æfingu,“ bætir Beggi við. Holtaskóli sigraði undankeppnina í sínum riðli og við tóku 6 vikur í frekari æfingar. „Eftir undankeppnina sáum við hvar við stóðum og sáum hvað við þurftum að bæta. En pressan sem þau setja á sjálf sig er mun meiri en við setjum nokkurn tíma á þau.“ Þegar stutt var í úrslitin fengu krakkarnir að einbeita sér að sínum æfingum í íþróttum og fengu jafnvel að sleppa sundi til að taka auka Skólahreystisæfingu. „Eftir undankeppnina förum við því aukaleiðir til að ná árangri en þau hafa sjaldan bætt sig jafn mikið eins og á milli undankeppninnar og úrslitanna,“ segir Bergþór.

Sigurliðinu var vel fagnað af yngstu nemendum skólans.
Sigurliðinu var vel fagnað af yngstu nemendum skólans. mbl.is/Eyþór Sæm

Undirbúningurinn stendur yfir allt árið, ekki bara yfir skólaárið

Þó svo að Skólahreystisvalið hefjist í september þá hvetja Einar og Beggi krakkana til að vera dugleg að hreyfa sig og æfa sig yfir sumartímann. „Við hvetjum þau til að nýta sumarið til að koma sér af stað,“ segir Einar. „Við reynum líka að búa til skemmtilega samkeppni á milli krakkanna innan greinanna,“ segir Beggi og Einar bætir við: „Því meiri keppni sem við höfum, því meira hvetur það krakkana áfram. Metnaðurinn er mikill hjá þessum krökkum og þau koma úr íþróttum þar sem þau þekkja varla annað en að vinna.“  

Holtaskóli á nú myndarlegt safn af bikurum og eru fyrri Skólahreystismeistarar duglegir að heimsækja gamla skólann sinn og taka þátt í undibúningi með núverandi keppendum. „Það líður varla mánuður þar til þau mæta og hamast og æfa með krökkunum,“ segir Einar. 

Keppni í Skólahreysti er því farin að setja ansi sterkan svip á skólalífið í Holtaskóla, og aðrir skólar í Reykjanesbæ fylgja þeim fast á eftir. Árið sem Holtaskóli lenti í 2. sæti sigraði Heiðarskóli, sem er einnig í Reykjanesbæ. Samkeppnin innan bæjarfélagsins er því ansi hörð. Ein af fyrstu Skólahreystisbrautunum var sett upp við Holtaskóla og það má vel vera að bætt æfingaaðstaða hjálpi til við að ná árangri, þó Skólahreystisvalið sé án efa sú grein sem gerir gæfumuninn.

„Við vitum ekki hvernig þetta er í öðrum skólum, en við einbeitum okkur bara að því sem við erum að gera, það er nóg fyrir okkur,“ segir Einar. „Við fáum líka frábæran stuðning frá stjórnendum, án hans værum við ekki búin að ná svona langt. Það skemmir heldur ekki fyrir að Eðvarð, skólastjóri er sjálfur mjög mikill keppnismaður,“ segir Beggi. Keppnisskapið hjá skólastjórnendum, kennurum og ekki síst nemendum mun því án efa halda áfram að koma skólanum langt í Skólahreystiskeppnum framtíðarinnar.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka