Framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, Hrólfur Ölvisson, tengist tveimur aflandsfélögum samkvæmt Panama-skjölunum. Annars vegar félaginu Chamile Marketing skráðu á Bresku jómfrúareyjum og hins vegar Selco Finance sem stofnað var í Panama. Bæði félögin voru stofnuð árið 2003.
Fram kom í Kastljósþætti Ríkisútvarpsins í kvöld að tilgangurinn með fyrra félaginu hafi verið að leyna fjárfestingum í dönsku fyrirtæki en þess síðarnefnda að halda utan um umboð fyrir bandarískt tryggingafélag sem hafi sérhæft sig í að tryggja efnafólki bestu fáanlegu meðferð á þarlendum sjúkrahúsum.
Greint var frá því í þættinum að uppsetningin Chamile Marketing hafi verið hefðbundin. Það er að starfsmenn panömsku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca voru skráðir stjórnarmenn og stjórnendur. Prókúra félagsins var hins vegar á nafni Hrólfs. Hlutabréf þess voru skráð á félag í eigu Hrólfs og viðskiptafélaga hans hér á Íslandi.
Fram kom að Hrólfur hafi á þessum tíma verið einn þriggja eigenda félagsins Eldberg ehf. í gegnum móðurfélagið Jarðefnaiðnað ehf. Chamile Marketing hafi verið ætlað að fela viðskipti þessara íslensku félaga í Danmörku í gegnum vaxtalausa lánveitingu.