Barn missti framan af fingri

Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar Árni Sæberg

Mál sem Vinnueftirlit ríkisins kærði til lögreglunnar í Vestmannaeyjum í febrúar árið 2012 þríþætts brots fiskvinnslufyrirtækisins í bænum gegn 14 ára barni var fellt niður í byrjun mars á þessu ári þar sem það hafði fyrnst fyrir tveimur árum. Barnið missti meðal annars framan af fingri í slysi við vinnu sína og hlaut við það varanlega örorku.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ASÍ. Þar segir að brot fiskvinnslufyrirtækisins hafi verið þríþætt. Í fyrsta lagi var barnið látinn vinna við hættulega vél sem er með öllu óheimilt að láta börn vinna við, í öðru lagi vann barnið á tólf tíma vöktum og í þriðja lagi var barnið látið vinna á næturvöktum.

Með þessari háttsemi braut fiskvinnslufyrirtækið gegn lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð um vinnu barna og unglinga, segir í tilkynningu ASÍ.

Slysið átti sér stað í júlí 2011 og var það rannsakað áfram árið 2012. Starfsmaðurinn sem sá um málið hjá lögregluembættinu í Vestamannaeyjum hætti hins vegar störfum árið 2012 og þar með stöðvaðist framgangur málsins hjá embættinu.

Þar sem refsingar vegna brota á vinnuverndarlöggjöfinni varða eingöngu sektum þá fyrnast slík mál á aðeins tveimur árum. Af þessum sökum felldi lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum málið niður með bréfi dagsettu 9. mars 2016 en málið hafði fyrnst árið 2014.

„Þetta mál er því miður ekkert einsdæmi. Kærur Vinnueftirlitsins lenda gjarnan neðarlega á forgangslista lögreglu m.a. vegna þess hversu vægar refsingarnar eru. Til að koma í veg fyrir að þetta gerist þarf því að herða refsirammann og kveða á um að brot á vinnuverndarlöggjöfinni varði a.m.k. sektum eða 2 ára fangelsisvist, en við það lengist fyrningarfrestur slíkra mála í 5 ár,“ segir í tilkynningu ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka