Aðstandendur 96 stuðningsmanna Liverpool sem fórust í Hillsborough-slysinu sungu „You'll never walk alone“ fyrir utan dómsalinn í morgun þegar 27 ára baráttu þeirra fyrir réttlæti lauk. Ástvinir þeirra voru loks hreinsaðir af ásökunum um að hafa valdið slysinu. Mögulegt er að ákærur verði gefnar út í kjölfarið.
Kviðdómendur í réttarrannsókn sem hefur staðið fyrir frá 1. apríl árið 2014 komust að þeirri niðurstöðu að það hafi verið grófri vanrækslu lögreglu og skipuleggjenda að kenna að harmleikurinn átti sér stað en stuðningsmönnunum sjálfum.
Hillsborough-slysið hefur legið eins og mara á stuðningsmönnum Liverpool frá því að það átti sér stað 15. apríl árið 1989. Þennan örlagaríka dag fórust 96 þeirra í gríðarlegum troðningi sem skapaðist í öðrum enda Hillsborough-vallarins í Sheffield við upphaf undanúrslitaleiks Liverpool og Nottingham Forest í ensku bikarkeppninni.
Þrátt fyrir að von væri á mun fleiri stuðningsmönnum Liverpool en Nottingham Forest á leikinn var þeim fyrrnefndum úthlutað minni endastúkunni, Leppings Lane-stúkunni. Vegaframkvæmdir töfðu för Liverpool-stuðningsmannanna á völlinn og því myndaðist töluverð örtröð við snúningshlið fyrir utan stúkuna þegar leikurinn var í þann mund að hefjast.
Yfirmaður lögreglunnar á leikdag, yfirlögregluþjónninn David Duckenfield, gaf því skipun um að opna öryggishlið og streymdu stuðningsmennirnir þá inn í stúkuna sem var þegar þéttsetin. Afleiðingarnar voru hörmulegar. Þeir sem voru þegar í stúkunni áttu sér engrar undankomu auðið enda var girðing fyrir framan stúkuna sem var skipt upp í hólf. Kramdist fólkið til bana í troðningnum og öngþveitinu.
Í stað þess að axla ábyrgð á því hvernig fór reyndi lögreglan í Suður-Jórvíkurskíri strax að kenna stuðningsmönnum Liverpool um hörmungarnar. Hópur drukkinna fótboltabullna sem ekki voru með miða hafi brotið upp hlið og rutt sér leið inn í stúkuna með þessum afleiðingum.
Ásakarnirnar voru sem salt í sár íbúa Liverpool-borgar sem höfðu ekki einu sinni náð að grafa ástvini sína, ekki síst þegar götublöð eins og The Sun slógu þeim upp á forsíðum sínum. Blaðið er enn sniðgengið í Liverpool-borg eftir að það birti rakalausar ásakanir um að drukknir stuðningsmenn Liverpool hafi rænt lík á vellinum og kastað af sér vatni á lögreglumenn sem reyndu að hjálpa nauðstöddum. Fyrirsögn blaðsins var „Sannleikurinn“.
Niðurstaða upphaflegu réttarrannsóknarinnar á dauða stuðningsmannanna var sú að þeir hafi látist af slysförum og saksóknarar töldu ekki nægileg sönnunargögn fyrir hendi til að gefa út ákærur gegn lögreglu eða öðrum.
Allt frá þeim tíma hafa aðstandendur þeirra 96 sem létust háð baráttu fyrir því að slysið væri rannsakað að nýju og að þeir fengju loks réttlæti. Árið 2009 tók sjálfstæð rannsóknarnefnd til starfa og komst hún að þeirri niðurstöðu þremur árum síðar að lögreglan hafi stundað umfangsmikla yfirhylmingu, breytt skjölum og kennt saklausum stuðningsmönnum um harmleikinn.
Það leiddi til þess að ný réttarrannsókn var fyrirskipuð og það var henni sem lauk í dag. Niðurstaða hennar er að lögreglan hafi valdið dauða fólksins með grófri vanrækslu sinni, bæði í skipulagningu fyrir leikinn og aðgerðum sínum á meðan á honum stóð. Stuðningsmennirnir hafi ekki stuðlað að því sem gerðist.
Tilgangur réttarrannsóknarinnar var aðeins að kveða úr um dánarorsök fólksins en ekki að sakfella eða sýkna einstaklinga. Hún getur hins vegar orðið kveikja að því að ákærur verði gefnar út. Ríkissaksóknaraembætti Bretlands gaf það út í dag að það muni kanna hvort að ákærur verði gefnar út gegn Duckenfield eða öðrum sem báru ábyrgð á slysinu.
Margaret Aspinall, sem missti son sinn sem var 18 ára gamall í Hillsborough-slysinu og hefur verið í forsvari fyrir aðstandendurna sagði daginn tilfinningaþrunginn. Stuðningsmennirnir ættu að vera stoltir af sjálfum sér, þeir séu hetjur.
„Ég held að við höfum breytt hluta sögunnar núna,“ sagði Aspinall við fréttamenn fyrir utan dómsalinn í Warrington á Norður-Englandi í dag.
Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, sagði í færslum á Twitter að réttarrannsóknin hafi loks séð stuðningsmönnum Liverpool fyrir langþráðu réttlæti. Lofaði hann hugrekki aðstandendanna í langri leit þeirra að sannleikanum. Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, mun lýsa opinberum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar á morgun.
David Crompton, yfirlögregluþjónn lögreglunnar í Suður-Jórvíkurskíri, gaf út afdráttarlausa afsökunarbeiðni til fjölskyldna þeirra sem létust í kjölfar niðurstöðunnar. Duckenfield hefur ekki brugðist við niðurstöðunni. Hann bar vitni við rannsóknina og viðurkenndi að hafa logið um mistökin sem hann gerði. Bað hann fjölskyldurnar afsökunar.
Andy Burnham, þingmaður Verkamannaflokksins sem var íþróttamálaráðherra þegar nýrri rannsókn var hrundið af stað, kallaði eftir því að ákærur verði gefnar út í framhaldinu.
„Þetta fer fram úr öllu því sem við gátum vonast eftir en þetta er aðeins það sem þau verðskulda. Þetta er réttlæti fyrir þau. Ástvini þeirra. Í kvöld geta þau hvílst rólega í fyrsta skipti í 27 ár,“ sagði Burnham um niðurstöðuna.
Blaðamaður The Guardian hafði samband við ritstjórn The Sun til að fá viðbrögð við niðurstöðu réttarrannsóknarinnar í dag í ljósi umdeildrar umfjöllunar blaðsins um slysið á sínum tíma.
„No comment, takk.“