Átta einstaklingar hafa verið ákærðir fyrir að hafa svikið allt að 300 milljónir króna út úr ríkinu. Vísir greinir frá þessu. Fyrrverandi starfsmaður ríkisskattstjóra er sagður hafa leikið lykilhlutverk í svikunum. Fólkið hafi notað sýndarfyrirtæki til að svíkja féð út úr virðisaukaskattskerfinu.
Í frétt Vísis kemur fram að málið sé eitt það umfangsmesta sinnar tegundar á Íslandi og það hafi verið til meðferðar hjá lögreglu og saksóknara í á sjötta ár. Um sé að ræða sex karlmenn og tvær konur.
Málið kom upp í september árið 2010. Fyrirtækin sem fólkið kom á fót höfðu enga raunverulega starfsemi en fengu í krafti falsaðra gagna og aðgangs að starfsmanni ríkisskattstjóra stórfé vegna byggingar þriggja húsa sem aldrei voru reist. Fyrirtæki gátu þá fengið sérstaka heimild til endurgreiðslu á innskatti á meðan uppbyggingu stóð. Fólkinu tókst þannig að svíkja rúmlega 270 milljónir króna út úr virðisaukaskattskerfinu, að sögn Vísis.
Rannsókn málsins er sagt hafa lokið árið 2013 og það hafi síðan verið á borði ríkissaksóknara. Það verði tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í næsta mánuði.
Mbl.is óskaði eftir ákæru í málinu frá embætti ríkissaksóknara. Þar fengust hins vegar þær upplýsingar að ákæran yrði ekki gefin út opinberlega fyrr en tryggt væri að hún hafi verið kynnt öllum sakborningunum.
Vísir fullyrðir jafnframt að grunaður höfuðpaur í málinu sé Íslendingur sem flúði land rétt áður en komið var upp um svikin. Hann var handtekinn í Venesúela í september árið 2010.
Fyrri frétt mbl.is: Íslendingur handtekinn