Erfitt að sjá það sem blasti við

Uppgröftur á bílastæðinu við Landsímahúsið er í fullum gangi. Fundist …
Uppgröftur á bílastæðinu við Landsímahúsið er í fullum gangi. Fundist hefur fjöldi beinagrinda, enda er þarna elsti kirkjugarður Reykvíkinga. mbl.is/Golli

Erfitt var að sjá það sem blasti við undir malbikinu á Landsímareitnum svokallaða eftir mikið jarðrask frá fyrri tíð. Fyrra jarðrask og framkvæmdir höfðu fjarlægt og rutt því til sem þar var og á að einnig við um Fógetagarðinn.

Þegar Landssímahúsið er reist árið 1932 með tilheyrandi framkvæmdum er Fógetagarðurinn opnaður að hluta og símastrengir lagðir í gegnum hann þveran og segja menn að „mergð mannabeina“ hafi komið upp við þessa aðgerð, sem og legsteinar.

Þetta segir Vala Garðarsdóttir, forleifafræðingur og uppgraftrarstjóri á Landsímareitnum í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Líkt og áður hefur komið fram lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn í síðustu viku. Þar sagði:

„Í ljósi forn­leifa­upp­graft­ar við Landsíma­húsið, samþykk­ir borg­ar­stjórn að bygg­ingaráform á reitn­um verði end­ur­skoðuð með það að mark­miði að horfið verði frá því að reisa fyr­ir­hugað stór­hýsi í hinum forna Vík­ur­kirkju­g­arði, elsta kirkju­g­arði Reykja­vík­ur, enda er nú komið í ljós að kirkju­g­arður­inn nær inn á bygg­ing­ar­reit­inn.

Þess í stað verði leit­ast við að forðast menn­ing­ar­legt tjón með því að vernda kirkju­g­arðinn, setja þar upp minn­ing­ar­mörk um hina framliðnu og gefa al­menn­ingi kost á úti­vist í garðinum eft­ir því sem kost­ur er.“

Samþykkt var að vísa til­lög­unni til borg­ar­ráðs til frek­ari skoðunar.

Saga kirkjugarðsins löng

Í grein Völu segir að saga Víkurkirkjugarðs sé löng. Í raun viti enginn hvenær fyrsta kirkjan var stofnuð né hvenær kirkjugarðurinn var tekinn í notkun en hægt er að leiða sterk rök að því að Víkurkirkja hafi verið stofnuð undir lok 11. aldar. Þó hefur alla tíð verið vitað að þar sem nú er Fógetagarðurinn hafi Víkurkirkja staðið, skrifar Vala.

Samkvæmt heimildum var Víkurkirkja vígð af Stefáni Jónssyni, næstsíðasta kaþólska biskupnum í Skálholti, árið 1505. Kirkjan var endurgerð árið 1720 og sú kirkja síðan rifin undir lok 18. aldar, þegar hafist var handa við að reisa nýja dómkirkju 1787, en endurbyggð 1848.

Kirkjugarðurinn var svo aflagður 1838 og fluttur að Suðurgötu. En vitað er til þess að grafið var í garðinn með undantekningum til 1883. Frá lokum 18. aldar hafa allmörg hús staðið þar sem nú er hinn svokallaði Landssímareitur. 

„Mergð mannabeina“ blasti við

Þegar Landssímahúsið er reist árið 1932 með tilheyrandi framkvæmdum er Fógetagarðurinn opnaður að hluta og símastrengir lagðir í gegnum hann þveran og segja menn að „mergð mannabeina“ hafi komið upp við þessa aðgerð, sem og legsteinar. Einnig var vegur lagður að Landssímahúsinu við þessar framkvæmdir, eða svokölluð akbraut, skrifar Vala.

„Þegar herinn kemur til landsins og yfirtekur Landssímahúsið eiga sér stað enn frekari framkvæmdir sem vel sjást í jörðinni og það sama má segja um þá framkvæmd sem átti sér stað við viðbyggingu Landssímahússins 1967 og undirbúningur þess árið á undan. Þá átti sér stað töluvert mikið jarðrask og var hluti kirkjugarðsins fjarlægður í þeirri framkvæmd, eins og vel sést við núverandi rannsókn,“ segir einnig í grein Völu.

Auk þessara framkvæmda hefur átt sér stað endurnýjun lagna, háspennustrengja, brunna og fráveitna ásamt ljósleiðaralagningu nú ekki alls fyrir löngu. Allar þessar framkvæmdir sem hér á undan eru nefndar hafa raskað gamla og nýja Víkurkirkjugarði allverulega, skrifar Vala.

Erfitt að sjá það sem blasti við

„Að þessu sögðu langar mig til þess að segja að rannsóknin sem á sér stað nú þar sem áður var bílastæði Landssímahússins hefur varpað enn betra og nýju ljósi á sögu og þróun Víkurkirkjugarðs sem og upphaf byggðar.

Erfitt var að sjá það sem við blasti undir malbikinu eftir allt það mikla jarðrask frá fyrri tíð. En frá upphafi höfum við verið í samvinnu við Minjastofnun vegna þessa, enda með rannsóknarleyfi veitt af henni og ekkert gert nema með samþykki hennar sem eðlilegt er.

Fyrra jarðrask og framkvæmdir höfðu fjarlægt og rutt til því sem þarna var og á sú staðreynd því miður einnig við í Fógetagarðinum sjálfum.

En þar eigum við góðan stað til þess að minnast og halda í hávegum minni Víkurkirkju, kirkjugarðsins og þeirra sem þar voru jarðsettir, jafnvel að endurreisa þann minningarvegg er rifinn var niður 1967 um kirkjugarðinn,“ segir í grein Völu.

Frétt mbl.is: Telur tillöguna byggða á misskilningi

Frétt mbl.is: Grafirnar eru mikið raskaðar

Uppgröftur á Landsímareitnum.
Uppgröftur á Landsímareitnum. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert