Rannsókn á mansali lokið

Vík í Mýrdal
Vík í Mýrdal mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á mansalsmáli sem kom upp í Vík í Mýrdal er lokið. Málið kom upp um miðjan febrúar en maður er grunaður um að hafa haldið fólki í vinnuþrælkun. Maðurinn er eigandi fyrirtækisins Vonta International og sætir nú farbanni til 25. maí en var áður í gæsluvarðhaldi.

Málið komst upp þegar að lög­regla fann tvær kon­ur frá Sri Lanka í kjall­ara húss manns­ins á Vík og hann var í kjöl­farið hand­tek­inn. Nú eru þó sex með stöðu brotaþola í mál­inu, kon­urn­ar tvær og fjór­ir út­lend­ing­ar til viðbót­ar sem störfuðu hjá fyr­ir­tæk­inu.

Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjóns  á Suður­landi, er verið að ganga frá málinu og verður það sent áfram á næstu dögum til ákærusviðs. Þaðan verður það áframsent til embættis héraðssaksóknara til endanlegrar ákvörðunar. 

Þorgrímur Óli segir að rannsóknin hafi gengið vel en tekið tíma. „Það er okkar mat að þetta hafi gengið vel. En það fór mikill tími í þetta, það er nokkuð ljóst,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Aðspurður hvort að rannsókn málsins hafi verið embættinu lærdómsrík segir Þorgrímur Óli að lögreglan læri af hverri rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert