Fangelsisdómar í Milestone-málinu

Karl Wernersson.
Karl Wernersson. mbl.is/Styrmir Kári

Hæstiréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og dæmdi ákærðu í Milestone-málinu til fengelsisvistar. Héraðsdómur hafði áður sýknað alla ákærðu. Einn sýknudómur var staðfestur yfir þriðja endurskoðandanum sem ákærður var í málinu.

Karl Wernersson var dæmdur í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði, Steingrímur Wernersson í tveggja ára fangelsi og Guðmundur Ólason í þriggja ára fangelsi. Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson voru dæmd í níu mánaða fangelsi en fullnustu refsinganna fellur niður haldi þau skilorð í tvö ár. Þá voru þau Margrét og Sigurþór svipt löggildingu til endurskoðunarstarfa í sex mánuði.

Bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir voru í málinu ákærðir ásamt Guðmundi Ólasyni fyrir að hafa látið Milest­one fjár­magna kaup bræðranna á hluta­fé syst­ur þeirra, Ing­unn­ar, í fé­lag­inu. Hafi verið með öllu óvíst frá hverjum, hvenær eða með hvaða hætti Milestone fengi fjármunina til baka.

Þá voru endurskoðendurnir Margrét og Sigurþór ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur við endurskoðun sína á ársreikningum Milestone og samstæðureikninga samstæðunnar fyrir árin 2006 og 2007.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að umræddir fjármögnunarsamningar hefðu engar skuldbindingar lagt á Milestone heldur eingöngu Karl og Steingrím en þrátt fyrir það hafi félagið verið látið efna samningana við Ingunni upp á tæplega 5,1 milljarð króna. þannig hefðu þeir misnotað aðstöðu sína hjá Milestone.

Þeir voru einnig sakfelldir fyrir umboðssvik í tengslum við þetta og fyrir meiriháttar brot gegn lögum um bókhald með því að hafa í ákveðnum tilvikum ekki hagað bókhaldi með nægjanlega skýrum, öruggum og aðgengilegan hátt á grundvelli áreiðanlegra og fullnægjandi gagna. Þá voru þeir sakfelldir fyrir meiriháttar brot gegn lögum um ársreikninga með því að hafa rangfært efnahagsreikninga vegna Milestone fyrir árin 2006 og 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert