Athygli vakti í umræðum á Alþingi í dag þegar Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að það ætti að skipta út yfirstjórn Landsbankans, þ.á.m. bankastjóranum, vegna Borgunarmálsins. Þorsteinn sagði að yfirstjórnin bæri ábyrgð á klúðrinu, en ekki bankaráðsmennirnir fyrrverandi. Það er hins vegar ekki í samræmi við það sem kemur fram í samantekt bankans frá því í lok janúar á þessu ári.
Þorsteinn viðurkennir í samtali við mbl.is að hann hefði mátt vanda orðavalið í ræðustól í morgun, en hér að neðan má hlusta á ræðu þingmannsins.
Í samantekinni, sem Landsbankinn sendi Alþingi 26. janúar sl., er fjallað um aðkomu bankaráðs að sölu á hlut bankans í Borgun hf. Þar kemur m.a. fram að bankaráð hafi á árinu 2013 ákveðið að hefja undirbúning að sölu á hlutum bankans í Valitor og Borgun. Bankaráð fjallaði síðan ítrekað um fyrirhugaða sölu á hlutum Landsbankans í Valitor og Borgun.
Í samantektinni kemur m.a. fram að rætt hafi verið um sölu á eignarhlutum í kortafyrirtækjum á fundi bankaráðs 31. mars 2014 en þá hafði tilboð frá hópi stjórnenda og fjárfesta í hlut Landsbankans í Borgun komið fram.
Einnig kemur fram að 22. október 2014 kynnti bankastjóri Landsbankans stöðu viðræðna um sölu á hlutum bankans í Valitor og Borgun.
Á bankaráðsfundi 6. nóvember 2014 samþykkti bankaráðið endanlega kauptilboðið sem var dagsett 27. október 2014. Í samantekinni segir orðrétt þar sem vitnað er í fundargerð: „Bankaráð samþykkir kauptilboð í hluti Landsbankans í Borgun sem stjórnendur höfðu samþykkt fyrir hönd bankans 27. október 2014 með fyrirvara um samþykki bankaráðs. Fjallað um afstöðu Samkeppniseftirlitsins að einungis eitt fjármálafyrirtæki megi eiga kortafyrirtæki. Gerð grein fyrir undirbúningi að sölu á hlutabréfum í Valitor og samningum þar að lútandi vegna valréttar milli Visa Europe og Visa Inc.“
Þorsteinn viðurkennir í samtali við mbl.is að það hafi ekki verið hárnákvæmt hjá honum að orða þetta þannig á Alþingi í morgun að bankaráðið hafi hvergi nærri komið að sölunni.
„Ég lít þannig á að þeir [bankaráðið] hafi staðið frammi fyrir tilboði sem var búið að vinna í hendurnar á þeim af starfsmönnum bankans og þeir hafi samþykkt það,“ segir Þorsteinn hins vegar. Hann bætir við að bankaráðið hafi axlað sína ábyrgð í málinu með því að víkja en öðru máli gegni um yfirstjórn bankans.
Fram kemur á vef Landsbankans að bankaráð „fer með málefni bankans og skal annast um að skipulag hans og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og í samræmi við lög, reglur og kröfur eftirlitsaðila. Bankaráð fer með æðsta vald í málefnum bankans á milli hluthafafunda og hefur eftirlit með daglegum rekstri.“
Þá segir að bankastjóri annist daglegan rekstur Landsbankans „og framkvæmir stefnu, ákvarðanir og fyrirmæli bankaráðs. Bankastjóri skal ávallt starfa af heilindum, með hagsmuni bankans að leiðarljósi. Hann fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum bankans í samræmi við stefnu, markmið, áhættuvilja og mörk samkvæmt ákvörðun bankaráðs.“
Samantekt Landsbankans sem var send til þingmanna í janúar.