Tæplega 46% myndu kjósa Ólaf Ragnar Grímsson til áframhaldandi setu á stóli forseta Íslands samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Maskínu, 24,6% vilja Guðna Th. Jóhannesson, sem ekki hefur formlega lýst yfir framboði, í forsetaembættið og 15% Andra Snæ Magnason. Aðrir sem nefndir voru mælast með minna en 2% fylgi.
Fylgi Ólafs Ragnars er mest meðal yngstu kjósendanna en 76,8% kjósenda yngri en 25 ára myndu kjósa hann. Þá er staða hans sterkust á landsbyggðinni og á meðal þeirra sem hafa lægstar tekjurnar auk kjósenda Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Fylgi Guðna er mest meðal kjósenda á aldrinum 45-54 ára, sem búa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, eru með 800 þúsund eða hærri fjölskyldutekjur og sem kjósa Bjarta framtíð. Andri Snær sækir fylgi sitt einkum til fólks á aldrinum 25-34 ára, sem býr í Reykjavík og kýs Samfylkinguna.
Mest aukning hefur orðið í stuðningi við Ólaf Ragnar og Guðna frá hliðstæðri skoðanakönnun í byrjun þessa mánaðar. Fylgi við Andra Snæ hefur einnig aukist en minna. Fylgisaukning Ólafs Ragnars kemur í kjölfar þess að hann tilkynnti formlega um framboð.
Könnunin var gerð dagana 18.-29. apríl og tóku 68% svarenda afstöðu til frambjóðenda. Spurt var opið hvaða frambjóðanda fólk myndi kjósa.