Hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnir fjármálastefnuna á fundi með blaðamönnum í …
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnir fjármálastefnuna á fundi með blaðamönnum í dag. mbl.is/Eggert

Í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega, að hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði verði hækkaðar í 500 þús. kr. og framkvæmdir við nýjan Landspítala verði boðnar út árið 2018. Gert er ráð fyrir þremur nýjum hjúkrunarheimili og að lokið verði við Hús íslenskra fræða á tímabilinu og renna alls 3,7 milljarðar króna til verkefnisins.  

Þetta er meðal þess sem fram kemur í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu um fjármálastefnu og fjármálaáætlun fyrir hið opinbera til fimm ára, sem lagðar voru fram á Alþingi í dag. Fjármálaráðherra og forsætisráðherra kynntu blaðamönnum stefnuna síðdegis.

Stefnan og áætlunin fela í sér að hægt verði á næstu árum að búa „enn frekar í haginn fyrir komandi kynslóðir með því að greiða niður opinberar skuldir, draga úr álögum á fólk með lægri og sanngjarnari sköttum, byggja upp samfélagslega innviði og treysta til muna grunnþjónustu ríkisins með hækkun bóta, eflingu heilbrigðiskerfisins og auknum gæðum menntunar,“ segir í frétt ráðuneytisins.

Fjármálastefna er lögð fram á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál. Hún felur í sér almenn markmið um þróun opinberra fjármála, þ.e. ríkisins og sveitarfélaga,  en ýtarlegri útfærsla á markmiðum stefnunnar birtist í fjármálaáætluninni. Með þessu er mikilvægt skref stigið til að treysta umgjörð opinberra fjármála og innleiða meiri samhæfingu og aga í áætlunargerð opinberra aðila með áherslu á langtímastöðugleika í efnahagslífinu.   

Lög um opinber fjármál innleiða strangar reglur um afkomu og skuldaþróun, en samkvæmt áætluninni verður markmiðum þeirra náð þegar á fyrstu tveimur árum hennar, með jákvæðum heildarjöfnuði yfir allt fimm ára tímabilið og lækkun heildarskulda hins opinbera; ríkis og sveitarfélaga, í 30% af vergri landsframleiðslu. Heildarafkoma A-hluta ríkis og sveitarfélaga verður jákvæð um að minnsta kosti 1% af vergri landsframleiðslu á tímabili áætlunarinnar í því skyni að viðhalda efnahagslegum stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Á árinu 2017 er gert ráð fyrir 26,5 milljarða króna jákvæðum heildarjöfnuði ríkissjóðs.

Staða og viðfangsefni ríkisfjármála hafa þannig gjörbreyst frá árinu 2013 og munar mest um eftirfarandi þætti:

  • Sjálfvirk skuldasöfnun ríkissjóðs var stöðvuð með hallalausum fjárlögum 2014-2016.
  • Skuldir ríkissjóðs lækka jafnt og þétt.  
  • Vaxtagjöld verða um 20 milljörðum króna lægri lægri (30 mia.kr. skv. nýjum reikningsskilastaðli)  í lok tímabilsins en þau voru í árslok 2015.
  • Vel hefur tekist til við uppgjör slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja.

„Vegna þessara umskipta verður á grunni ábyrgrar fjármálastefnu unnt að auka svigrúm fyrir áherslumál á málasviðum ráðuneytanna um 42 milljarða króna á tímabilinu, en 14 milljarðar renna til verkefna strax á árinu 2017. Þá verður mögulegt að byggja inn í áætlunina ýmis fjárfestingarverkefni sem hafa verið til skoðunar eða í undirbúningi undanfarin ár en ekki hefur verið talið mögulegt að fjármagna sökum hallareksturs í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Gera má ráð fyrir að svigrúm til framkvæmda á árunum 2017–2021 nemi samtals uppsafnað um 75 milljarða króna. Ekki er gert ráð fyrir að fjármagna þurfi þessi verkefni með óreglulegum tímabundnum tekjum ríkissjóðs á borð við arðgreiðslur eða söluhagnað,“ segir í frétt ráðuneytisins.

Nokkur helstu verkefni sem gert er ráð fyrir rúmist innan tímabilsins:

  • Heilbrigðismál. Í áætluninni er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega á næstu árum þannig að þau verði orðin ríflega 30 milljörðum króna hærri árið 2021 og verði þar með orðin ríflega 200 milljarðar króna á ári. Það svarar til þess að framlögin verði aukin um 18% að raunvirði yfir tímabilið. Sú aukning er fyrir utan allar launahækkanir sem munu bætast við á tímabilinu auk annarra verðlagsbreytinga. Þá nema framlög til kaupa á tækjabúnaði fyrir LSH og FSA 5 milljörðum á árunum 2016-2021 og 2,5 milljörðum verður varið til styttingar á biðlistum á sama tímabili.   
  • Nýr Landspítali. Byggingaframkvæmdir við fyrsta verkáfanga, einkum meðferðarkjarna og rannsóknarhús, verði boðnar út 2018 og komnar á fullan skrið árin 2019–2021. Þær koma til viðbótar byggingu sjúkrahótels, sem áformað er að ljúki 2017, og fullnaðarhönnun nýs meðferðarkjarna sem þegar hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum 2016 og síðustu ríkisfjármálaáætlun.
  • Fæðingarorlof. Gert er ráð fyrir að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði hækkaðar um 130 þúsund krónur í byrjun næsta árs í 500 þúsund krónur á mánuði, en markmiðið er að færa greiðslurnar í átt að því sem þær voru fyrir 2009. Samtals eykst framlag til sjóðsins um 1 milljarð króna á árunum 2017–2018.
  • Framhaldsskólar. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að framlög til framhaldsskólastigsins vaxi um 3,2 milljarða króna að raunvirði frá og með árinu 2016 og til ársins 2021, eða sem svarar til nálægt 12% raunvaxtar yfir tímabilið á sama tíma og rekstrarkostnaður skólanna mun lækka vegna styttingar námsins úr fjórum árum í þrjú.  
  • Húsnæðismál. Áfram verður gert ráð fyrir 1,5 milljörðum króna í áætluninni vegna stofnframlaga til uppbyggingar á félagslegum leiguíbúðum.
  • Þrjú ný hjúkrunarheimili. Heildarkostnaður ríkisins vegna byggingar þriggja nýrra hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu er um 4,7milljarðar króna.
  • Hús íslenskra fræða. Lokið verður við framkvæmdina á tímabilinu og renna alls 3,7 milljarðar króna til verkefnisins.  
  • Ný Vestmannaeyjaferja. Á tímabilinu verður ný ferja að fullu fjármögnuð og smíðuð en áætlaður kostnaður við ferjuna og botndælubúnað nemur nálægt 6 milljörðum króna.
  • Ferðamannastaðir. Stóraukin framlög renna til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum en gert er ráð fyrir að þau verði alls um 6 milljarðar króna, eða um 1,2 milljarðar á ári.
  • Dýrafjarðargöng. Áætluð útgjöld vegna gerðar ganganna nema ríflega 12 milljörðum króna á tímabilinu. 

Sjá á vef Alþingis:

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, mætir til blaðamannafundar í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, mætir til blaðamannafundar í dag. mbl.is/Eggert
Sigurður Ingi, forsætisráðherra kynnir fjármálastefnuna á blaðamannafundi í dag.
Sigurður Ingi, forsætisráðherra kynnir fjármálastefnuna á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert