Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru af tegundinni Super Puma rétt eins og þyrlan sem hrapaði við Turey í Hordalandi í Noregi í dag. Allar þyrlur í Noregi og Bretlandi af sömu gerð og sú sem fórst hafa verið kyrrsettar í kjölfar slyssins.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni þykir ekki ástæða til að kyrrsetja þyrlur hennar.
Þyrlur gæslunnar séu eldri en sú sem fórst og sú hafi verið um margt öðruvísi þó hún byggði á hönnun þeirra eldri. Þyrlur gæslunnar eru 8,6 tonn en þyrlan úti 11,2, á þyrlum gæslunnar séu fjórir spaðar en á þyrlunni sem fórst hafi verið fimm. Meira rými sé aftur í nýju þyrlunum og stærri gluggar.
Segir Landhelgisgæslan enga ástæðu til að ætla að nokkur hætta sé á ferðum, enda séu þyrlurnar í raun gjörólíkar, eða eins og starfsmaður Gæslunnar orðaði það við blaðamann mbl.is: „Þetta er allt annað kram“.