Fimm manna fjölskyldu frá Úsbekistan, sem sótt hafði um hæli hér á landi vegna trúarofsókna í heimalandinu, var vísað úr landi á þriðjudag án þess að mál þeirra fengi efnislega meðferð. Eftir átta mánaða dvöl hér voru þau send til Frakklands því þau millilentu þar á leiðinni til Íslands í fyrra. Þau dreymir um að vera á Íslandi og eru með vilyrði um vinnu en íslensk yfirvöld sendu þau út í óvissuna í París.
Ég ætti ekki að vera hissa að krakkarnir hafi náð tungumálinu á þeim átta mánuðum sem þau bjuggu á Íslandi enda eru börn fljót að læra orð í gegnum leiki og skóla.
Þarna stöndum við í röðinni úti og troðningur er mikill. Við erum öll fámál. Það er kvíði og spenna í loftinu. Hvað mun gerast í dag? Mun fjölskyldan fá samastað hér í Frakklandi eftir allt? Allt í einu bendir öryggisvörðurinn, sem stjórnar umferð raðanna, Irinu, sem stendur fremst af okkur í hópnum, að fara í aðra röð. Pirringur leynir sér ekki því nú eru þau aftast í nýju röðinni. Það gengur samt hratt fyrir sig enda eru þau þaulvön, við förum í gegnum öryggisleit og síðan inn. Enginn talar annað en frönsku og ég sé strax að það fer ekki vel í þau. Þegar við komum inn í húsið benda Vladimir og Irina okkur krökkunum á að setjast á meðan þau reyna að komast að því hvert skal halda næst. Við setjumst niður og dóttir þeirra Milina fer að spjalla við mig um Ísland. Henni finnst gaman að tala íslensku og hún hefur náð góðum tökum á málinu. Hún segir mér frá lífinu á Íslandi, en krakkarnir hafa rætt mikið um Ísland síðan þau voru neydd til að yfirgefa vini og félaga fyrir tveimur dögum.
„Síðasti dagurinn í skólanum var erfiður“ segir Milina, „það fóru allir að gráta. Vinkonur mínar vildu ekki að ég færi frá Íslandi og kennarinn minn var líka grátandi. Ísland var gott land,“ segir Milina áður en við stóðum upp. „Þau sögðu áfram, svo inn til vinstri,“ segir Irina ekki vongóð um að við séum á réttum stað. Ég reyni eftir bestu getu að krafla mig áfram í frönskunni en er í raun engu nær.
Kona gengur fram hjá okkur og segir okkur að við eigum ekki að vera hér og leiðir okkur í stærri sal sem fljótlega fyllist af fólki. Tungumálaörðugleikarnir ýfa upp ótta, áhyggjur og reiði. Irina bölvar en Vladimir róar hana niður og reynir að halda uppi jákvæðri orku þó það sé erfitt á svona stundu. Við setjumst niður og Vladimir réttir kökkunum ipad til að leika með á meðan Irina tala við ráðgjafann.
Svo hefst biðin, endalausa gæti ég sagt.
Ráðgjafinn hefur nú fengið öll skjöl og vegabréf og þarf að vinna úr upplýsingunum. Við bíðum eftir framhaldinu. Irina sest á milli krakkanna og Vladimir fer út að reykja. Inn á milli heyri ég krakkana tala íslensku og það sýnir mér hversu tengd þau voru Íslandi og samfélaginu í Innri-Njarðvík, þar sem börnin hafa gengið í skóla í vetur. Irena byrjar að lýsa fyrir mér atburðum síðustu daga.
„Þann 26. apríl förum við frá Íslandi. Þegar við lendum á Charles de Gaulle flugvellinum í norðurhluta Parísar tekur lögreglan á móti okkur. Hún leiðir okkur niður að farangrinum okkar og lætur okkur hafa bréf. Í bréfinu stendur að við höfum átta daga til að fara á lögregluskrifstofuna á Rue des Saints- Peres 12, 77000 Melun, til að skrá okkur inn í landið. Svo erum við bara skilin eftir ein án alls.
Þarna stöndum við með 150 kg af farangri, þrjú börn og erum í sjokki. Við spyrjum lögreglumanninn hvað við eigum að gera næst og hvar eigum við að gista. „It's not my problem,“ svarar hann og fer.“
Svona lýsir Irina upphafsmínútum sínum sem flóttamaður í Frakklandi. Hún segir mér síðar að Útlendingastofnun hafi sagt þeim að Frakkland væri að bíða eftir þeim og vissi af þeim. Annað kom þó á daginn. Á flugvellinum ákveða þau að taka leigubíl á umrætt heimisfang lögreglu skrifstofunnar. Þau hafa ekki mikinn pening en heldur ekkert annað val tjáir Irina mér.
Ferðin tekur tvo tíma og kostar 150 evrur eða um 20 þúsund krónur. Þegar þau koma að umræddu heimilisfangi, skrifstofu lögreglu í Melun, er allt lokað og læst. Það er bara opið frá 9-12. Úti er rigning og börnin eru þreytt og biðja um að fá að borða. Af einskærri heppni rekast þau á rússnesk hjón sem hafa búið í bænum í nokkur ár. Loksins gátu þau talað móðurmálið og fengið smá útskýringar.
Rússarnir keyrðu þau um bæinn í leit að svefnstað áður en þau loks fundu hótel. „Við komum inn á fyrsta hótelið og biðjum um tvö herbergi í eina nótt,“ byrjar Vladimir að útskýra. „Afgreiðslukonan segir að það sé laust hjá þeim svo við förum að bera inn úr bílum. Þá renna á hana tvær grímur og hún breytir um skoðun. Segir bara nei, nei, við erum ekki með neitt laust. Við hlógum bara því þetta var orðið eitt stórt grín, bárum dótið aftur út í bíl og fórum á næsta hótel. Þar fengum við samastað þrátt fyrir alla kassana og töskurnar.“ Þetta var aðeins fyrsti dagur fjölskyldunnar í Frakklandi og ég spyr þau um næsta dag, miðvikudaginn, og hvernig hann hafi farið.
„Við vorum mætt hér öll fjölskyldan kl. 9 um morguninn. Við biðum í röð fyrir utan, fengum svo að koma inn. Einhver kona tók pappírana okkar og vegabréfin og svo var okkur bara sagt að bíða. Við biðum alveg til hádegis án þess að vita hvað væri að gerast en það lokar kl. 12. Þegar ljósin voru að slokkna kom konan til okkar aftur með tveimur öðrum starfsmönnum. Þau rituðu eitthvað á blaðið okkar og sögðu okkur að koma aftur á morgun kl. 9 og hér erum við aftur að bíða,“ segir Irena með pirring í röddinni. Óvissan er að taka sinn toll af þeim hjónum og þolinmæðin er á þrotum.
Hvað svo, spyr ég, fóruð þið upp á hótel eða? „Já svona næstum,“ heldur Irina áfram. Vladimir er farin aftur út að reykja en klukkan er rétt að verða hálf 11 og biðin rétt að byrja. „Við ákváðum að labba upp á hótel, það tekur u.þ.b. 40 mínútur.
Á leiðinni komum við að útimarkaði og keyptum brauð og osta til eiga að borða. Svo átti Vladimir gullhring sem við seldum til að eiga fyrir næstu nótt á hótelinu. Við áttum bara 50 evrur og hótel nóttin kostar 200 evrur með mat. Við tókum ekki matinn í þetta sinn svo það var 145 evrur. Hringinn seldum við á 150 evrur svo það dugði. En við eigum núna lítið eftir,“ segir Irina og fer að huga að krökkunum. Þau eru sár og vonsvikin yfir móttökunum hér í Frakklandi og líður eins og kerfið hafi svikið þau.
„Lýðræði hvað,“ segir Vladimir. Svo er nafn þeirra kallað og þau fara að tala við ráðgjafann. Ég átta mig ekki alveg á hvernig kerfið hérna virkar. Sumir eru með númer en stundum heyri ég líka nöfn kölluð. Svo er fólki stundum bent á að fara í næstu álmu án fyrirvara. En við sitjum enn á sama stað.
Klukkan að vera 11 og þau þurfa að tékka út af hótelinu klukkan 12 annars lenda þau í að borga aðra nótt.
Meðan Irina og Vladimir eru að tala við ráðgjafann og útskýra fyrir henni að Ísland og Úsbekistan séu alvöru lönd (Irina tjáir mér eftir á að ráðgjafinn hafi þurft að sjá löndin tvö inn á Google maps til að trúa henni), sé ég að krakkarnir eru að spila nokkra mismunandi tölvuleiki. Samir er að spila Mindcraft og er að byggja hól. Við spjöllum saman á íslensku um leikinn en ég þekki hann lítið sem ekkert. „Svo notarðu þetta tæki til að búa til og hamarinn til að brjóta“, segir Samir á óaðfinnanlegri íslensku. Ég skil enn ekkert mikið í leiknum og spyr Kemal hvað hann sé að spila. „Ég spila þennan leik,“ segir hann og sýnir mér mynd af Batman sem er að hlaðast inn. Kemal er aðeins meira tilbaka en Samir en þeir tvíburabræðurnir eru ótrúlega ólíkir. Milina sýnir mér sinn leik en hún er að teikna, svo sýnir hún mér píanóleik þar sem hún reynir að spila lag með því að vera snögg að ýta á takka sem renna niður skjáinn. Bræður hennar verða áhugasamir um leikinn og skipta jafnóðum í sama leik.
„Irina er loksins búin að sýna þeim kort af Íslandi og Úsbekistan með símanum sínum. Loksins skildi þetta heimska fólk að við erum að tala um alvöru lönd,“ segir Vladimir pirraður. „En þetta er svo gaman,“ heldur hann áfram, kreistir fram bros og kaldhæðnin leynir sér ekki.
„Þetta er allt annað en á Íslandi þá gekk allt svo fljótt fyrir sig. Þegar við komum út úr flugvélinni í Keflavík beið okkar lögreglubíll sem keyrði okkur upp á skrifstofur í Hafnarfirði. Þar biðum við í mesta lagi fimm mínútur og áður en við vissum af vorum við komin með heimili í Innri-Njarðvík. Svo eru allir svo vinalegir á Íslandi. Fólkið í skólanum, í búðinni eða bara úti á götunni heilsar manni og er alltaf til í að hjálpa. Allt annað en hér þar sem við erum bara skilin eftir án alls,“ segir Vladimir.
„Já ég var sko í körfubolta“, segir Milina „og þjálfarinn minn var mjög góður. Ég fór meira að segja ein í strætó á æfingar og tók Kemal með mér heim af æfingum í strætó.“ „Já ég var sko í fótbolta,“ bætir Kemal við stoltur. Svo virðist að fjölskyldan hafi verið búin að koma sér vel fyrir í Njarðvíkinni og kynnast góðu fólki enda eru þau ekkert nema góðmennskan uppmáluð sjálf.
Nú er pappírsvinnan búin og komið að passamyndatöku. Vladimir og Irina fara í vettvangsferð meðan ég sit með börnunum. Ég reyni að átta mig á umhverfinu. Í salnum er allskonar fólk af mismunandi þjóðerni að sækja um landvistarleyfi í Frakklandi. Þreyta skín úr andlitum fólks og vonin virðist engin. Franska kerfið er ekki enn tölvuvætt sem gerir umsækjendum enn erfiðara fyrir. Löng bið og týndar skrár getur verið raunin þegar kemur að skráningu inn í Frakkland. Sem ég og maður minn þekkjum reyndar sjálf þótt staða okkar sé talsvert önnur en ungu fjölskyldunnar. Ég veit ekkert hvað bíður þeirra og þegar ég hugsa til óvissunnar fæ ég sting í hjartað yfir þessu öllu, mannvonskunni sem liggur hulin á bakvið kerfið sem afsalar ábyrgðinni af mönnum og yfirfærir á eyðublöð.
Hjónin koma til baka, þau hafa fundið passamyndavél og fengið sér smók í leiðinni. Við stöndum öll á fætur og ég elti hersinguna í gegnum haf af fólki sem bíður eftir að fá afgreiðslu. Það er röð í passamyndakassann og Vladimir kaupir íste og vatn úr sjálfsala handa strákunum. Þeir eru alsælir sitjandi uppi í glugga sötrandi á sætu teinu. Irina fléttar Milinu og syngur lag á rússnesku og hvetur dóttur sína til að taka undir. Stemmningin er óútskýranleg en þau reyna að halda í gleðina og jákvæðnina og gefast ekki upp. Krakkarnir taka sig mjög vel út á myndunum og finnst spennandi að fara í passamyndatöku. Samir grettir sig pínu og þarf að taka myndina aftur. Meðan þreyttir foreldrarnir taka sínar myndir bítast krakkarnir um ísteið en það endar allt vel. Við förum aftur til baka á sama stað í gegnum mannhafið og þurfum núna að standa því ekki er nóg af sætum fyrir alla. Ég sé þrjú sæti laus og Vladimir bendir krökkunum á að setjast. Ipadar eru teknir upp að nýju og leikurinn heldur áfram. Biðin heldur áfram. Klukkan er orðin 12 og það er staðreynd að þau þurfa að borga fyrir aðra nótt á hótelinu. En hvernig? Þegar búin að selja gullhringinn! Við ræðum það ekki, heldur tölum um fjölskyldur þeirra. Ég kemst að því að þau voru ein fárra af sinni ætt sem enn bjuggu í Úsbekistan. Foreldrar þeirra og frændfólk voru löngu flutt ýmist til Grikklands, Rússlands eða Þýskalands allt vegna spillingar og trúarofsóknar. Irina og Vladimir eru kölluð til og fingraförin þeirra skönnuð, svo finnum við sæti og höldum áfram að bíða. Irina deilir með mér áhyggjum sínum og að hún sé með í maganum yfir að fá sama svar og í gær. „Come tomorrow -komið aftur á morgun.“
„Kannski við þurfum að hringja í 115 eftir allt saman“ segir Irina. „Að gista með heimilislausum, það er þeirra úrræði fyrir okkur. Við erum bara í sjokki. Þvílík ómanneskjuleg meðferð. Flóttafólk er ekki fólk í Frakklandi.“ Ég get ekki mikið sagt. Tilfinningarnar eru að taka yfir hjá okkur öllum.
Biðin og þreytan farin að segja til sín enda komið hádegi og enn ekkert að gerast. „Óvissan er verst,“ segir Irina, „ það að vita ekki hvað gerist eftir tvo tíma, að vita ekki hvar við sofum í nótt, það er erfiðasta.“ Nafnið hennar er kallað og hún stendur upp og hún gengur enn og aftur á fund ráðgjafans.
„You speak French?“ spyr Irina mig.
„Just a little bit,“ svara ég og spyr hvað sé að.
„Hún er að segja mér að koma á morgun aftur og ég skil ekki af hverju“ segir Irina með tárin í augunum. Aftur ætla þau að senda þau heim, út í óvissuna og líklega á götuna? Ég labba til ráðgjafans og spyr hvað sé að gerast. Hún tjáir mér að það séu tæknileg vandamál. Bendir mér á að þau eigi að taka þessa tvo pappíra og sýna þá á morgun kl. 9. Þau eiga að fara fram fyrir röðina og þetta mun taka stuttan tíma, hún lofar. Eftir það munu þau fá húsnæði, mat og dagpeninga. Ég spyr hvaða tæknilega vandmál það sé og hvort við getum ekki leyst það í dag. Ég útskýri ítarlega fyrir henni að þau hafi í engin hús að venda og séu ekki með neina peninga. Konan virðist finna til með þeim en tjáir mér að prentarinn sé bilaður og hún geti ekki prentað tiltekin gögn sem þarf að undirrita til að klára umsóknarferlið. Ég verð hissa á þessu forna tæknivandamáli en henni er ekki haggað.
Vladimir hlær, nær í krakkana og setur ipadana í töskuna. Irina tekur pappírana sem hún á að sýna á morgun, það er uppgjöf í andlitinu. Tárin byrja að streyma þegar við göngum út og í átt að bænum.
„Er mamma að gráta?“ spyr Milina en Irina neitar, þurrkar tárin og setur upp sólgeraugu.
Við röltum niður í miðbæ Melun og tökum strætó upp á hótelið. Strætóferðin tekur ca. 20 mínútur.
Þegar við komum á hótelið sýna krakkarnir mér herbergið spennt. Þau eru ágætlega rúmgóð og svona miðað við allar aðsæður er þetta ekkert of slæmt. En þessi aðstaða kostar samt sitt, 150 evrur nóttin án morgunmats, sem gerir 21.000 kr. Krakkarnir hoppa upp í rúm, finna teikniblokkir og fara að leika.
Ekki líður á löngu fyrr en þau eru farin út í sólina í eltingaleik. Þegar internetið er komið á símana berast gleðifréttir en þau fengu sendingu frá Íslandi. Nokkrir vinir höfðu safnað saman smá fjárupphæð og nú hafa þau litlar 350 evrur á milli handana. Næturgisting er tryggð og kvöldmatur handa öllum.
Hamingjan skín úr andlitum hjónanna og vonin færist yfir ásamt brosinu.
Vladimir kemur inn í herbergi með þrjá kaffibolla á bakka. Við þrjú setjumst niður til að ljúka samtali okkar á viðburðaríkum degi. Irina fer strax að hugsa um aðra sem eru jafnvel í verri stöðu en þau.
„Hvað verður um þá sem eiga enga að. Þá sem eiga enga vini eða ættingja sem geta hjálpað þeim?“ veltir Irina upp. „Það eina sem við eigum eru vinir og ættingar en hvar værum við án þeirra?“ Það er þögn. „Við vildum ekki fara til Frakklands við vildum fara til Íslands en það er ekkert íslenskt sendiráð í Úsbekistan. Við leituðum því til franska sendiráðsins sem tekur að sér svona beiðnir.
Vandamálið er að þeir gleymdu að skrá það í vegabréfin okkar að við vildum fara til Íslands. Það ætti að vera lítil merking í vegabréfinu okkar en það var ekki gert, þess vegna erum við hér. Við erum að reyna að ná í franska sendiráðið í Úsbekistan til að fá þau til að viðurkenna mistök sín svo við getum komið aftur til Íslands. Ég var líka með vilyrði fyrir vinnu hjá íslenskri ferðaþjónustu.
Allir sem við hittum sögðu að við myndum aldrei verða send í burtu, við værum með réttu pappíra en núna erum við í helvíti flóttamannsins. Hér er kerfið það erfiðasta í Evrópu. Við hefðum getað endað í Póllandi, Þýskalandi eða Noregi, en við völdum Ísland.“ segir Irina.
Af hverju Ísland? spyr ég.
„Það var draumur Vladimirs frá barnæsku að fara til Íslands. Svo líka af því það er eins langt í burtu og hugsast getur frá mannvonskunni í Úsbekistan,“ segir Irina. Ég spyr þau lokaspurningar sem brennur á mér en ég veit að það er ekkert svar við. Framtíðin! Hver er hún? Hvar er hún? Þreytuleg horfast þau í augu og dæsa. „Það er engin framtíð, það er bara á morgun og á morgun förum við aftur upp á þessa skrifstofu og vonandi fáum við þá húsnæði,“ segir Irina. Vladimir bölvar kefinu og lýðveldinu, þau eru þreytt og uppgefin eftir síðastliðna daga. Tilfinningarnar eru ekki langt undan og þau vita að baráttan er ekki búin heldur rétt að byrja. Þau vita að franska kerfið er erfitt en þau taka bara einn dag í einu.
Ég kveð þau og held af stað út að strætóskýli. Vladimir fylgir mér eins og sönnum herramanni sæmir, bíður með mér eftir strætó í nær 10 mínútur. Vladimir og Irina eru ekki svo frábrugðin sjálfri mér, við erum meira að segja á sama aldri. Við kyssumst á hvora kinn og kveðjumst með það í huga að heyrast í gegnum Facebook. Ég vil vita hvað gerist á morgun. Ég er þreytt og strætó tekur sér tíma að komast upp á lestarstöð. Ég missi af lestinni sem kemur á 20 mínútna fresti svo ég kaupi mér vatn og KitKat til að narta í á meðan ég bíð. Ég næ hraðlestinni og er komin heim til mín á innan við klukkutíma. Ég sofna á leiðinni enda dauðþreytt eftir rosalegan dag. Tilfinningar mínar eru heldur ekki langt undan, það er erfitt að fylgjast með samferðafólki í þessu lífi þjást. Ég kem heim, opna tölvuna og byrja að skrifa. Skrifa þeirra sögu með von um að Irina og Vladimir fái draum sinn um að búa á Íslandi uppfylltan.
Föstudagur 29. apríl Ég vakna heima hjá mér í norðurhluta Parísar og hugsa til Irinu og Vladimir. Klukkan er 9 og þau ættu að vera komin upp a skrifstofuna aftur. Núna fá þau húsnæði hugsa ég og fæ mer kaffi. Síðar um daginn kemst eg að því í gegnum Facebook skilaboð frá Irinu að þau voru send aftur burt af skrifstofunni og sagt að koma á mánudaginn. Enn hindra tæknivandamál umsóknarferli. Baráttan við kerfin, bæði íslenska og franska, heldur áfram.
Vinir og velunnarar fjölskyldunnar hafa stofnað bankareikning þeim til stuðnings: Reikningsnúmerið er 159-05-60366 og kennitalan 191085-3619. Einnig er undirskriftasöfnun í gangi þeim til stuðnings hér.