Hefur ekki áhrif á þyrlur Gæslunnar

Þyrla frá Landhelgisgæslunni.
Þyrla frá Landhelgisgæslunni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess að þyrluslysið í Noregi hafi rekstrarleg áhrif á þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Gæslunni. 

„Tilfinningalega snertir þessi atburður við okkur hjá Landhelgisgæslunni þar sem við höfum átt náið og gott samstarf með Norðmönnum í tengslum við þyrlureksturinn. Hugur okkar er hjá þeim á þessari stundu og sendir Landhelgisgæslan innilegar samúðarkveðjur,“ segir í fréttatilkynningu.

Þyrlan sem fórst í Noregi var af gerðinni EC225. Hún hrapaði til jarðar með þeim afleiðingum að þrettán manns fórust.

„Eðlilega fara af stað miklar vangaveltur eftir svona slys og velta nú margir því fyrir sér hvort þetta hafi áhrif á þyrlur Landhelgisgæslunnar,“ segir í tilkynningu. „Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru eldri útgáfa umræddrar þyrlu og um margt mjög ólíkar. Á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess að slysið hafi rekstrarleg áhrif á þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar. Því til stuðnings má benda á að svipuð slys á EC225 fyrir fáeinum árum sem urðu til þess að allar EC225 vélar voru stöðvaðar, höfðu ekki áhrif á þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert