Lögbrot að senda börn á götuna

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Lögmaðurinn Helga Vala er verjandi Seibel-fjölskyldunnar en hún hefur tekið að sér fleiri mál fyrir flóttamenn. „Við tókum tíu mál í byrjun ársins sem öll fara á sama veg. Þetta er raunveruleikinn fyrir þessa einstaklinga, þau fá enga aðstoð hérna,“ segir hún.

Mál Seibel-fjölskyldunnar er enn í ferli. „Við erum að undirbúa að þingfesta stefnu og semja og afla frekari gagna,“ segir hún en málið snýst um hvort vegabréfsáritun til Íslands sem þau sóttu um í Úsbekistan hafi verið lögleg.

Vegabréfsáritun dregin í efa

„Þau sóttu um vegabréfsáritun til að koma til Íslands, en til þess fer maður í sendiráð í heimalandi. Við eigum ekkert sendiráð í Úsbekistan heldur sér franska sendiráðið um að afgreiða okkar mál. Þau fara þangað með farseðla til Íslands með millilendingu í París. Þau eru búin að bóka hótel og eru með svokallað boðsbréf frá íslensku ferðaþjónustufyrirtæki. Þau leggja þetta inn og óska eftir vegabréfsáritun. Franska sendiráðið afgreiðir þetta og gefur út leyfið og af því að franska sendiráðið gefur út vegabréfsáritunina þá fela íslensk stjórnvöld sig á bak við það og segjast ekki þurfa að taka umsókn þeirra um hæli til skoðunar á Íslandi. Og þannig skýla íslensk stjórnvöld sér á bak við Dyflinnarreglugerðina eins og svo oft áður,“ útskýrir Helga Vala og heldur áfram:

„Í þessari ágætu reglugerð kemur skýrt fram að það ríki sem veitir vegabréfsáritunina beri ábyrgð á hælisumsókn nema ef að sendiráðið er að koma fram fyrir hönd annars ríkis. Á þessu byggjum við vörnina. Þarna sóttu þau um vegabréfsáritun til Íslands á grundvelli íslensks boðsbréfs og með flugmiða. Kærunefnd segir að þetta sé ekki nógu mikil sönnun,“ segir hún.

Umsóknin ekki skoðuð

Þannig hafi það verið túlkað að áritunin sé venjuleg Schengen-áritun en ekki áritun til Íslands en ekki var hægt að gefa einungis áritun til Íslands þar sem þau þurftu að millilenda í Frakklandi. Þegar til Íslands var komið var þeim því synjað um að umsóknin um dvalarleyfi væri tekin til greina. „Hún hefur aldrei verið skoðuð. Þeim var strax synjað um afgreiðslu máls á Íslandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þau kærðu það til Kærunefndar útlendingamála og bentu á að þau hefðu sannarlega sótt um vegabréfsáritun til Íslands en ekki Frakklands og þess vegna ætti Ísland að skoða umsóknina þeirra. En kærunefndin sagði bara nei.“

Kærunefnd sem öllu ræður

Helga Vala segir að kærunefndin hafi sagt að það væri ekkert sem sannaði að ferlið hafi verið með þessum hætti. „Og þá fórum við og sóttum um leyfi fyrir fjölskylduna að fá að dvelja á Íslandi á meðan að farið er með málið fyrir dóm. Og þar kem ég inn í fyrst og byrja að vinna fyrir þau,“ segir Helga Vala sem talað hefur fyrir daufum eyrum. Hún segir að óhæft sé að kærunefndin stýri hver má fara í mál við ríkið og hver ekki, á sama tíma og þau hafi synjunarvaldið.

„Kerfið á Íslandi er þannig að maður sækir um þetta leyfi hjá sama stjórnvaldi og synjaði þeim, þ.e.a.s. Kærunefnd útlendingamála. Þannig stýrir þessi nefnd hverjir eigi möguleika á því að fara í mál við ríkið vegna niðurstöðu Kærunefndar útlendingamála,“ segir hún og nefnir dæmi um fáránleikann: „Þetta er eins og ef við værum í einkamáli og ég fengi að ráða því hvort ég hafi gert eitthvað á þinn hlut og ég fengi að ráða því hvort þú fáir að fara með málið fyrir dóm eða ekki. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Þetta er ekki hægt.“

Börn send út í óvissuna

Helga Vala ætlar alla leið til dómstóla með málið. „Ég veit ekki til þess að það hafi áður reynt á þetta ákvæði varðandi vegabréfsáritunina. Hvar er réttur einstaklings til að vera á landinu á meðan að málið er rekið fyrir dómstólum? Er þetta jafnræði aðila fyrir dómi, að vera staddur einhvers staðar úti í heimi og geta ekki fylgt málinu eftir? Fyrir utan þær aðstæður sem er verið að bjóða börnunum upp á, að vera á götunni í Frakklandi,“ segir hún og telur að verið sé að brjóta þar lög. „Það er í sjálfu sér brot af því að við megum ekki senda börn frá landinu út í óvissu. Við megum það ekki. Það er í lögum. Þá spyr ég, eru þetta viðunandi aðstæður sem við setjum þessi börn í – þrjá litla krakka?“ segir hún og er mikið niðri fyrir.
Ekkert til saka unnið

Hún telur kerfið meingallað varðandi hver fær hér dvalarleyfi og hver ekki. „Þetta fólk er fullfrískt og tilbúið að vinna og láta hendur standa fram úr ermum. Af hverju viljum við bara fylla landið af einhverjum farandverkamönnum sem borga enga skatta og skyldur á Íslandi? Af hverju viljum við ekki frekar fólk sem vill borga til þjóðfélagsins? Okkur vantar fólk. Leyfum þessu fólki að vera hérna. Þetta fólk hefur ekkert til saka unnið. Það sótti sannarlega um vegabréfsáritun til Íslands.“

Ábyrgð í alþjóðasamfélagi

Ég spyr um dómsmálið og möguleika fólksins á að vinna það. „Mér finnst þetta vera grundvallarmál. Þarna reynir mjög á þessar reglur í Dyflinnarreglugerðinni. Við getum ekki falið okkur á bak við það að við erum hvergi með sendiráð. Við verðum að bera ábyrgð í alþjóðasamfélaginu. Það er verið að breyta lögunum en það liggur frumvarp fyrir Alþingi. En þetta er auðvitað túlkun á lögunum – túlkun stjórnvalda, Útlendingastofnunar. Það er í Dyflinnarreglugerðinni gert ráð fyrir að við berum ábyrgð á þeim umsóknum þar sem fólk hefur sótt um vegabréfsáritun til Íslands,“ segir Helga Vala sem vinnur að málinu án þess að þiggja laun fyrir.

Almenningur á að hafa hátt

Þegar spurt er um hvenær megi vænta dómsúrskurðar svarar Helga Vala: „Eftir tólf mánuði.“ Það er langur tími fyrir þrjú lítil börn og foreldra þeirra sem búa nú við mikla óvissu. „Það er svo mikið álag á kerfinu – á dómstólum,“ segir hún. Þau eru semsagt að fara að dvelja í Frakklandi næstu tólf mánuði? spyr ég. „Já, nema að eitthvað annað gerist,“ segir hún.

Margir hafa haft samband við Helgu Völu sem og aðra sem til fjölskyldunnar þekkja og vilja bjóða fram aðstoð. Er eitthvað sem almenningur getur gert til að hjálpa þeim? spyr blaðamaður. „Já, bara hafa hátt. Mótmæla þessari framkvæmd. Það sjá allir hvað þetta er brútalt. Af hverju sendum við börn á götuna í Frakklandi? Af hverju?“

Helga Vala Helgadóttir er lögmaður Seibel-fjölskyldunnar. Hún segir brotalöm í kerfinu þar sem Kærunefnd útlendingamála sitji báðum megin borðs. Hún telur það lögbrot að senda fjölskylduna úr landi. Málið er í ferli en Helga telur að dómsúrskurðar sé ekki að vænta fyrr en eftir ár. Á meðan bíður fjölskyldan í Frakklandi milli vonar og ótta.

Frétt mbl.is: „Það er engin framtíð“

Helga Vala Helgadóttir lögmaður.
Helga Vala Helgadóttir lögmaður. mbl.is/Ómar Óskarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert