Hallarekstur sem fáar leiðir eru færar út úr er helsta ástæða þess að Alþýðusamband Íslands hefur ákveðið að selja Ásmundarsal við Freyjugötu í Reykjavík, þar sem listasafn samtakanna er til húsa.
Starfsemi þess í núverandi mynd verður hætt í byrjun október næstkomandi. „Rekstur Ásmundarsals hefur verið að þyngjast verulega undanfarin ár eftir að Alþingi ákvað að draga verulega úr fjárveitingum til Listasafns ASÍ. Hvorki Safnasjóður né Reykjavíkurborg vilja gera svokallaða rekstrarsamninga, heldur veita styrki í einstaka viðburði,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Fyrir helgina auglýsti fasteignasalan Valhöll eftir tilboðum í Ásmundarsal, sem er í eigu listasafnsins. Óskað er eftir tilboðum í húsið og því ekki ljóst hvað fæst fyrir það. Ljóst má þó vera að verðmætið hleypur á mörgum tugum milljóna króna, enda er þetta hús með merka sögu og á besta stað í borginni.