Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður tveggja karlmanna sem kærðir voru fyrir nauðgun en mál þeirra felld niður, er að undirbúa stefnu gegn Fréttablaðinu fyrir fréttaflutnings þess af málinu. Hann reiknar með því að stefnan verði þingfest strax eftir næstu helgi.
Ríkisútvarpið greinir frá þessu á vef sínum og staðfesti Vilhjálmur þetta við mbl.is. Fréttablaðið fjallaði töluvert um Hlíðamálið svokallaða í lok síðasta árs.
Þann 10. nóvember á síðasta ári birti Vilhjálmur færslu á Facebook-síðu sinni og greindi frá því að reynt yrði á ábyrgð Fréttablaðsins vegna umfjöllun blaðsins um meintar nauðganir umbjóðanda hans.
Þar sagði hann:
„Í Fréttablaðinu í gær, 9. nóvember 2015, var því slegið upp á forsíðu, að íbúð í Hlíðunum hafi verið útbúin til nauðgana. Hér er myndband af íbúðinni. Dæmi nú hver fyrir sig. Engu að síður kýs aðalritstjóri Fréttablaðsins að berja höfðinu við steininn og segir í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær að Fréttablaðið standi við fréttina.
Kærðu neita alfarið sök og styðja gögn málsins og vitnisburðir framburð þeirra. Aftaka kærðu á netinu í gær mun verða íslendingum til vansa um aldir alda. Á því ber Fréttablaðið fulla ábyrgð ásamt hlutaðeigandi mykjudreifurum. Á þá ábyrgð mun reyna.“
Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi og aðalritstjóri 365, sagði kvöldið áður í fréttum Ríkisútvarpsins að ekkert gæfi ástæðu til að bera efnisatriði til baka.
Frétt mbl.is: Einn stendur við ummælin
Frétt mbl.is: Mun reyna á ábyrgð Fréttablaðsins