„Staðan er bara óbreytt. Málið er á dagskrá bæjarstjórnar í kvöld og við erum bara enn að velta vöngum yfir stöðunni,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is. Aðspurður segir hann drög að svari frá lífeyrissjóðum, sem eru langstærstu kröfuhafar bæjarfélagsins, liggja fyrir en beðið sé eftir endanlegu undirrituðu svari.
Kjartan segist aðspurður ekki geta rætt innihald draganna en þar er væntanlega brugðist við tillögu um 6,5 milljarðar króna verði felldir niður af skuldum Reykjanesbæjar sem í heildina eru um 40 milljarðar. Ætlast er til að lífeyrissjóðirnir taki á sig um fjórðung þess en þeir hafa fram til þessa ekki samþykkt það eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Enn er mögulegt að fjárhaldsstjórn verði sett fyrir bæjarfélagið.
Fundur bæjarstjórnar hefst klukkan fimm og mun að sögn Kjartans að líkindum standa lengur enda verði ársreikningar bæjarfélagsins einnig teknir fyrir.