Lágmarksstærð íbúða gæti orðið 20 fermetrar

Með breytingum á byggingarreglugerð er reynt að lækka kostnað við …
Með breytingum á byggingarreglugerð er reynt að lækka kostnað við byggingu íbúðahúsnæðis. Sigurður Bogi Sævarsson

Í dag var undirrituð breyting á byggingarreglugerð með það að markmiði að lækka byggingarkostnað íbúðarhúsnæðis. Með breytingunum getur lágmarksstærð íbúðar sem er eitt herbergi minnkað verulega og orðið um 20 fermetrar fyrir utan sameign. Lágmarksstærð íbúðar með einu svefnherbergi getur minnkað samsvarandi.

Þá er kröfum til bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhúsnæði breytt og dregið úr kröfum um lágmarksfjölda þeirra. Kröfur um breidd á göngum og svalagögnum er einnig breytt, en helstu breytingar eru tíundaðar í tilkynningu á vef  umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Í tilkynningunni kemur fram að með breytingarnar lúti einna helst að aðkomu, umferðarleiðum og innri rýmum mannvirkja sem og stjórn mannvirkjamála hvað varðar minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi. „Með reglugerðinni eru kröfur um lágmarksstærðir rýma í íbúðum felldar brott en í stað þess sett inn markmið, sem veitir ákveðið frelsi við útfærslu hönnunar. Breytingarnar miða fyrst og fremst að því að auka sveigjanleika við gerð íbúðarhúsnæðis,“ segir á vef ráðuneytisins.

Þá kemur fram að hafinn sé undirbúningur að gerð frumvarps til laga um breytingu á lögum um mannvirki og á skipulagslög þar sem áhersla verður lögð á einföldun stjórnsýslu byggingarmála með lækkun byggingarkostnaðar vegna íbúðarhúsnæðis að leiðarljósi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka