Samningar við kröfuhafa náðust ekki

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á bæjarstjórnarfundi í kvöld að tilkynna eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga formlega um að samningar við kröfuhafa hefðu ekki náðst.

Tillagan var samþykkt með 7 atkvæðum af 11, þ.e. 6 atkvæðum meirihlutans auk eins atkvæðis frá bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins.

Spurður hvort bænum verði skipuð fjárhaldsstjórn í kjölfarið segist Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, ekki vita það. „Það er í höndum eftirlitsnefndar að taka við málinu, fara yfir það og ræða við okkur,“ segir hann.

Að sögn Kjartans Más uppfyllti bæjarstjórnin ákvæði sveitarstjórnarlaga með því að tilkynna eftirlitsnefndinni um að samningarnir hefðu ekki náðst. „Þar segir í 77. grein á þá leið að ef bæjarstjórn eða sveitarstjórn sér ekki fram á að geta staðið í skilum eða staðið við skuldbindingar sínar skal hún tilkynna það eftirlitsnefnd.“

Frétt mbl.is: Drög að svari liggja fyrir 

Reykjanesbær.
Reykjanesbær. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Komust ekki undir 150% skuldaviðmið

Kjartan segir að eftir að ný sveitarstjórnarlög tóku gildi árið 2012 hafi sveitarfélög fengið tíu ár til að koma skuldaviðmiði niður fyrir 150 prósent af tekjum. Sveitarfélög áttu að skila aðlögunaráætlun sem sýndi fram á hvernig þau færu að þessu. „Reykjanesbær skilaði slíkri áætlun 2013 sem kom mjög fljótlega í ljós að var óraunhæf og stóðst aldrei. Við komu sveitarstjórnarkosninga 2014 rukkar eftirlitsnefndin okkur nýja aðlögunaráætlun sem við höfum ekki getað sett fram. Við höfum ekki séð hvernig við getum komist undir þetta 150 prósenta skuldaviðmið, öðruvísi en að ná samningum við kröfuhafa um niðurfellingu,“ greinir Kjartan frá.

„Nú þegar ljóst er að samningar við kröfuhafa eru ekki að takast getum við ekki sett saman svona áætlun. Þar með teljum við okkur skylt að tilkynna eftirlitsnefnd um það.“

Frétt mbl.is: „Eins og í amerískri bíómynd“

Vonbrigði eftir 18 mánaða viðræður

Hann segir það vissulega vonbrigði að samningar skuli ekki hafa náðst eftir átján mánaða viðræður. „Við vorum búnir að ná samkomulagi um að kröfuhafar  yrðu á bak við rúm 60% af því sem við vorum búin að skilgreina sem niðurfærsluþörf sveitarfélagsins. Svo voru það kröfuhafar Reykjaneshafnar, sem eru lífeyrissjóðir að stærstum hluta, sem samþykktu ekki þessa tillögu.“

Skuld­ir Reykja­nes­bæj­ar nema rúm­um 40 millj­örðum króna. Niður­færsluþörf bæj­ar­ins nem­ur 6 millj­örðum og 350 millj­ón­um króna.

Að sögn Kjartans höfðu  verið uppi viðræður við þá um aðrar lausnir en eftir að bréf kom frá þeim seint í gærkvöldi þar sem þeir útskýrðu sín sjónarmið var ljóst að ekkert yrði úr samningum. „Það sem þar kom fram þótti ekki líklegt til að hjálpa okkur í málinu. Þess vegna var ákveðið að setja punkt þarna núna og fara með málið til nefndarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert