Hæstiréttur hefur staðfest frávísun hópsmálsóknar hluthafa í Landsbankanum gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. Alls stóðu 269 einstaklingar og fyrirtæki á bak við málsóknina þegar hún var þingfest. Árni Harðarson, stjórnarmaður og lögmaður Alvogen, á rúm sextíu prósent þeirra hlutabréfa sem standa málsókninni að baki.
Stefnendur töldu að Björgólfur hafi með saknæmum hætti komið í veg fyrir að hluthafar Landsbankans fengju upplýsingar um umfangsmiklar lánveitingar og einnig að hann hafi brotið gegn reglum um yfirtöku.
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði málinu frá í mars og taldi að ekki hafi verið sýnt fram á tjón þeirra sem stóðu að málsókninni. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu í gær. Kröfugerð stefnenda hafi ekki verið nógu skýr. Hún verði ekki skilin þannig að Björgólfur hafi með athafnaleysi sínu valdið því að hlutabréf hluthafanna hafi orðið verðlaus í byrjun október 2008.