Tveir þeirra sem fengu kröfubréf vegna ummæla sinna í kjölfar frétta um Hlíðamálið svokallaða hafa hafnað kröfunum sem þar eru gerðar. Nokkrir sem fengu bréf hafa beðist afsökunar á ummælum sínum en aðrir hafa beðið um frest til að skoða málið betur.
Einn þeirra tæplega 2.400 manns sem deildi færslu á Facebook þar sem meintir gerendur voru nafngreindir og kallaðir nauðgarar fékk kröfubréf en í því tilfelli er um svokallað prófmál að ræða. Langflestir sem deildu færslunni bættu engu við hana og um það snýst prófmálið.
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður tveggja karlmanna sem kærðir voru fyrir nauðganir seint á síðasta ári, sendi tuttugu og tvö kröfubréf á laugardaginn og gaf frest til miðnættis mánudaginn 2. maí til að bregðast við kröfunum.
Í bréfunum var viðtakendum boðið að setja fram opinbera afsökunarbeiðni vegna ummæla sinna, draga þau til baka og greiða skaðabætur. Yrði það ekki gert geta þeir gert ráð fyrir að þeim verði stefnt vegna ummælanna.
Mánudaginn 9. nóvember á síðasta ári sagði Fréttablaðið frá því að tveir karlmenn væru grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot en hefðu ekki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
„Íbúð í Hlíðunum útbúin til nauðgana“ var fyrirsögn fréttarinnar sem var á forsíðu blaðsins. Þar sagði að rannsókn lögreglunnar beindist að húsnæði í fjölbýlishús í Reykjavík og sagðist blaðið hafa heimildir fyrir því að íbúðin væri búin tækjum til ofbeldisiðkunar.
Í fréttinni sagði einnig að samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins hafi lögregla fundið ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir áttu að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur. Þá sagði einnig að hankar hefðu verið í loftinu sem grunur léki á að mennirnir hefðu notað til að hengja aðra konuna upp á meðan ráðist var á hana.
Forsíðufrétt blaðsins reitti marga til reiði. Fjölmargir tjáðu sig um málið á samfélagsmiðlum og notuðu kassamerkið #almannahagsmunir í því samhengi. Þá var boðað til mótmæla við lögreglustöðina við Hverfisgötu vegna málsins en margir sættu sig ekki viða mennirnir tveir hefðu ekki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lauk rannsókn sinni á málunum tveimur í byrjun desember og voru þau send til embættis héraðssaksóknara. Þann 19. febrúar lá síðan fyrir að bæði málin yrðu felld niður og hafa þær niðurstöður verið kærðar til embættis ríkissaksóknara.
Ýmsar ástæður eru fyrir því að fólkið fékk kröfubréfin um helgina. Þar má nefna fjölmiðlamenn sem fjölluðu um málið; skriflega á prent- og vefmiðlum og munnlega í útvarpi og einstaklinga sem tjáðu sig um málið á samfélagsmiðlum.
Bréfin snúa einnig að færslu karlmanns sem tæplega 2.400 manns deildu á Facebook. Þar er að finna myndir af mönnunum tveimur sem kærðir voru í málunum ásamt texta þar sem fólk er hvatt til að deila færslunni svo stelpur geti varað sig á þeim. Mennirnir voru nafngreindir og kallaðir nauðgarar.
Um 2.350 manns deildu færslunni án þessa að bæta neinu við og telur Vilhjálmur að slík dreifing á ærumeiðandi ummælum flokkist sem opinber birting og um leið dreifing á ærumeiðandi ummælum. Vilhjálmur lítur á málið sem nokkurs konar prófmál. Sá sem skrifaði færsluna fékk kröfubréf og einnig einn þeirra sem deildi honum án þess að bæta nokkru við.
„Komist dómur að þeirri niðurstöðu að það að deila færslu geti flokkast sem opinber dreifing á ærumeiðandi ummælum, mun Vilhjálmur meta stöðuna og gætu þá liðlega 2.350 einstaklingar sem deildu færslunni átt von á kröfubréfi frá honum fyrir hönd skjólstæðinga hans,“ sagði í frétt Ríkisútvarpsins í gær.
Vilhjálmur undirbýr einnig stefnu gegn Fréttablaðinu fyrir fréttaflutnings þess af málinu. Hann reiknar með því að stefnan verði þingfest strax eftir næstu helgi.
Frétt mbl.is: Einn stendur við ummælin
Frétt mbl.is: Undirbýr stefnu gegn blaðinu