Afsökunarbeiðni vegna Hlíðamálsins svokallaða var í kvöld birt á fréttavef DV.is. Þar segir að blaðið og fyrrverandi blaðamaður DV biðjist afsökunar á því sem ofsagt sé í þremur fréttum af Hlíðamálinu, sem birtar voru 9. nóvember í fyrra.
Þann dag birti Fréttablaðið á forsíðu frétt um meinta nauðgun og hrottaleg kynferðisbrot tveggja manna og fjallað var um málið, meinta gerendur og viðbrögð á samfélagsmiðlum á vef DV.is.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður manna tveggja sem kærðir voru fyrir nauðgun í Hlíðarmálinu er sáttur við afsökunarbeiðnina. „Það er ánægjulegt þegar blaðamenn og netmiðlar sjái að sér og biðjist afsökunar á því þegar þeir hafa beitt menn rangindum. Þeir eru menn að meiru fyrir vikið og mættu fleiri fylgja þeirra fordæmi,“ sagði Vilhjálmur.
Vilhjálmur segir ekki fleiri afsökunarbeiðnir hafa borist frá fjölmiðlum að svo stöddu. Afstaða miðla 365 liggi fyrir og Hringbraut hafi fengið frest til að skoða málið ásamt lögfræðingi miðilsins.
Afsökunarbeiðnin sem birt er á DV.is er svohljóðandi:
„Jóhann Skúli Björnsson fyrrv. blaðamaður og DV biðjast afsökunar á því sem ofsagt var í þremur fréttum www.dv.is af svokölluðum Hlíðamálum, 9. nóvember 2015.
Málsaðilar hafa náð fullum sáttum. Efni sáttarinnar er trúnaðarmál.“
Vilhjálmur hefur sent úr 22 kröfubréf vegna Hlíðamálsins, þar sem fólk er krafið um afsökunarbeiðni og miskabætur vegna ummæla sinna. Þá hefur hann sent tvær kærur.
Tveir þeirra sem fengu kröfubréf vegna ummæla sinna í kjölfar frétta um Hlíðamálið svokallaða hafa hafnað kröfunum sem þar eru gerðar. Nokkrir sem fengu bréf hafa beðist afsökunar á ummælum sínum en aðrir hafa beðið um frest til að skoða málið betur.