Fylgi Pírata dregst saman

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylgi Pírata hefur minnkað töluvert samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR, eða um 7,8 prósentustig, frá því fyrir mánuði síðan. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur á sama tíma aukist um 5,3 prósentustig.

Píratar eru þó enn með mest fylgi samkvæmt könnuninni eða 28,9% sem er rúmu einu prósentustigi meira en fylgi Sjálfstæðisflokksins sem er 27,8%. Munurinn á milli er ekki marktækur samkvæmt fréttatilkynningu frá MMR.

Fylgi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefur einnig aukist samkvæmt skoðanakönnuninni. Fylgi flokksins er nú um 5 prósentustigum meira en síðast og stendur í 14%.

Fylgi Framsóknarflokksins er 11,2% og hefur aukist um 2,5 prósentustig. Samfylkingin er með 9,7% og lækkar um 0,2 prósentustig og fylgi Bjartrar framtíðar er 3,6% og lækkar um 2,6 prósentustig.

Fyrr í mánuðinum voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar Gallup þar sem Píratar mældust með 26,6% fylgi og hafði fylgi þeirra minnkað um 9 prósentustig frá fyrri könnun. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist hins vegar 27% og hafði aukist um umtalsvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert