Árni Páll hættur við framboð

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Árni Páll Árna­son, for­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, er hættur við að bjóða sig fram til for­manns á ný. Þetta kemur fram í tölvu­pósti sem hann sendi til flokks­manna Sam­fylk­ing­ar­innar í dag.

Frestur til að tilkynna um framboð til formanns rennur út á morgun.

Í bréfinu segir Árni að hann geti ekki horft fram hjá því „að um þessa sýn og um mína persónu er ekki eining og atburðarásin á og frá síðasta landsfundi vekur mér efasemdir um að sú eining geti skapast með mig sem formann. Mín biði því erfið barátta, innan flokks sem er í sárum, sem enginn veit hverju myndi skila. Í bréfi til Hannibals árið 1949 lýsti Gylfi Þ. Gíslason því að tiltekinn árangur hefði getað náðst í baráttu þeirra félaganna fyrir nýjum og betri stjórnmálum „ef ég hefði sjálfur getað gengið til verks með þeim dugnaði og því ofstæki sem ég á ekki til.“ Mér er nú líkt farið og Gylfa var þá.“

Árni segir stöðu flokksins óásættanlega. „Sem fyrr vara ég flokksfólk við að halda að á henni séu einfaldar lausnir. En hugsjónir jafnaðarmanna þurfa samhentan og skynsaman flokk sem ber þær fram og persónur geta ekki staðið þeim framar. Ég hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs sem formaður flokksins.“

Bréfið í heild:

Kæru vinir og samherjar.

Undanfarna viku hef ég rætt við flokksfólk og undirbúið formannskjör, skipulagt kosningabaráttuna og safnað undirskriftum meðmælenda um allt land. Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi við hugmyndina um opinn, fjölbreyttan flokk sem tekur sér stöðu í miðju samfélagsins og berst hönd í hönd með verkalýðshreyfingunni fyrir félagslegu réttlæti, jöfnum tækifærum, einstaklingsfrelsi og öllu því sem máli skiptir fyrir venjulegt fólk. Það er sú hugmynd sem hefur dregið mig áfram alla tíð.

En ég get ekki horft framhjá því að um þessa sýn og um mína persónu er ekki eining og atburðarásin á og frá síðasta landsfundi vekur mér efasemdir um að sú eining geti skapast með mig sem formann. Mín biði því erfið barátta, innan flokks sem er í sárum, sem enginn veit hverju myndi skila. Í bréfi til Hannibals árið 1949 lýsti Gylfi Þ. Gíslason því að tiltekinn árangur hefði getað náðst í baráttu þeirra félaganna fyrir nýjum og betri stjórnmálum „ef ég hefði sjálfur getað gengið til verks með þeim dugnaði og því ofstæki sem ég á ekki til.“ Mér er nú líkt farið og Gylfa var þá.

Staða flokksins er óásættanleg. Sem fyrr vara ég flokksfólk við að halda að á henni séu einfaldar lausnir. En hugsjónir jafnaðarmanna þurfa samhentan og skynsaman flokk sem ber þær fram og persónur geta ekki staðið þeim framar. Ég hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs sem formaður flokksins.

Ég er óendanlega þakklátur öllu stuðningsfólki mínu um land allt fyrir stuðning og hvatningu. Þjóðin á skilið að eiga öflugan jafnaðarflokk, sem styður þann formann sem flokksmenn velja til forystu í allsherjaratkvæðagreiðslu. Ég mun gera mitt til að svo verði. Vonandi birtist sá flokkur þjóðinni 4. júní næstkomandi og sýnir sig tilbúinn til verka.​

Með kærri kveðju,

Árni Páll Árnason

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka